Misstir þú af þessum fréttum um helgina? brúðkaup, horfinn jökull, gleðigangan og íslenskir nýnasistar

Varst þú á flakki um helgina. Fór eitthvað fram hjá þér. Hringbraut hefur tekið saman helstu fréttir liðinnar helgar og þær fréttir sem vöktu hvað mesta athygli í íslenskum fjölmiðlum:

Sólrún og Frans giftu sig

Áhrifavaldurinn og hreinlætisfrömuðurinn Sólrún Diego giftist unnusta sínum, Frans Veigari Garðarssyni, í Háteigskirkju á laugardaginn. Brúðkaupsveislan þótti einkar falleg og var eins og vænta mátti hvergi til sparað.

Fréttablaðið greindi frá því að mikill undirbúningur hafi farið í veisluna eins, þar sem skreytingar voru stílhreinar og látlausar. Hvítur litur var allsráðandi, þar sem hvítar rósir í glervösum fengu að njóta sín á hverju borði.

\"\"

Mynd: Instagram

Hinn ástsæli söngvari Friðrik Dór tók lagið og söng lag sitt „Skál fyrir þér“ þegar brúðhjónin stigu sinn fyrsta vals. DJ Dóra Júlía þeytti svo skífum fram eftir kvöldi.

Horfinn jökull kvaddur

„Í dag kveðjum við formlega jökulinn Ok en hann er fyrstur íslenskra jökla til að hverfa á tímum loftslagsbreytinga. Landslagið er vissulega enn þá fallegt, en fegurðin dvínar í augum okkar sem vitum hvað var þarna áður og hvers vegna það er horfið.“

Þannig hófst pistill eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem hún birti á samfélagsmiðlum. Þar sagði Katrín jafnframt að staðan í dag væri fordæmalaus. Í gær var hún viðstödd minningarathöfn um jökulinn.

\"\"

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, var sömuleiðis viðstaddur athöfnina og sagði í samtali við RÚV:

„Ég kvaddi Ok í dag með þeim hætti að heita því að gera það sem ég get til þess að koma í veg fyrir að fleiri jöklar á Íslandi hverfi.“ 

Gleðigangan

Gleðigangan fór fram á laugardaginn og lagði mikið fjölmenni leið sína í miðbæinn til þess að fylgjast með og taka þátt. Með Gleðigöngunni var rekinn endahnúturinn á Hinsegin daga, sem fögnuðu 20 ára afmæli í ár og fóru fram frá 8. – 17. ágúst.

Lögreglan var með töluverðan viðbúnað í bænum vegna hátíðarinnar og greindi frá því að allt hafi farið vel fram, gleðin ráðið ríkjum og fólk verið til fyrirmyndar.

Örlítinn skugga bar þó á hátíðarhöldin þegar Elínborg Harpa Önundardóttir, sem er hinsegin, var handtekin þegar gangan fór fram. Hún var sökuð um að mótmæla göngunni en Elínborg sagði það af og frá.

\"\"

Hún er meðlimur í samtökunum No Borders Iceland og sagði að engin mótmæli hafi verið fyrirhuguð og sagði lögregluna hafa farið offari í sinn garð. Var Elínborg sár og reið vegna þessa.

Íslenskir nýnasistar kveða sér hljóðs

Íslensku nýnasistasamtökin Norðurvígi, sem talin eru hafa tengsl við sambærileg og alræmd samtök á Norðurlöndum, voru mjög virk á Facebook um helgina. Samtökin birtu kostaðar auglýsingar með áróðursspjöldum sem innihalda myndir af Adolf Hitler og slagorð gegn fjölmenningu.

\"\"

Fyrir utan vefsíðu sína eru samtökin með mjög virka Facebook-síðu sem var uppfærð oft um liðna helgina. Á Facebook-síðu Norðurvígis var meðal annars spurt hvað væri að því að vera nasisti.

DV greindi fyrst frá og þar var fjallað ítarlega um málið.

Jón Gnarr gaf góð ráð vegna tilrauna til innbrota

„Fyrir nokkrum árum var brotist inn heima hjá okkur. Þetta var á föstudagseftirmiðdegi. Við höfðum brugðið okkur frá í nokkra klukkutíma og skilið útidyrnar eftir ólæstar. Einhver fór inn á stigaganginn, stal úr vösum og tók tölvu sem sonur minn hafði skilið eftir.“

Þannig hefst innlegg sem Jón Gnarr birti á Facebook um helgina. Miklar umræður sköpuðust vegna fréttar Vísis sem birti myndskeið af blaðburðardreng, sem tók í hurðarhún á heimili eftir að hafa skilað blaði í lúgu þess.

\"\"

Jón gaf fólki einnig gott ráð um hvernig það gæti sett upp ódýra eftirlitsmyndavél. „Ég hvet fólk til að læsa útidyrum og líka að setja upp einfaldar eftirlitsmyndavélar. Það er til dæmis hægt að nota gamla síma og setja í þá ókeypis öpp. Ég geri það. Ég er með Presence og gamlan iPhone útí glugga og ef einhver er að sniglast í kringum heimili mitt þá fæ ég „notification“ með mynd.“

Nýr dómsmálaráðherra fyrir næsta þing

RÚV greindi frá því að Bjarni Benediktsson stefni að því að skipa nýjan dómsmálaráðherra áður en næsta þing hefst þann 10. september næstkomandi. „Ég stefni að því að það verði á næstunni og ég geri ráð fyrir því að við verðum komin með nýjan dómsmálaráðherra áður en nýtt þing hefst,“ segir Bjarni í samtali við RÚV.

\"\"

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var tímabundið skipuð dómsmálaráðherra eftir að Sigríður Á. Andersen steig til hliðar í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að hún hafi með ólögmætum hætti skipað fjóra dómara við Landsrétt.

Í samtali við RÚV svaraði Þórdís Kolbrún því ekki til með beinum hætti hvort hún hefði áhuga á að taka við embættinu til frambúðar en sagði þó að hún hefði hingað til talað skýrt um að staða hennar dómsmálaráðherra væri tímabundið verkefni. „Ég auðvitað sinni stöðunni nú, en það hvernig ráðherraskipunin verður þegar þar að kemur verður bara að koma í ljós.“

Björn Ingi reisti bænahús

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, hefur reist bænahús á jörðinni Másstöðum sem er undir Akrafjalli. Þar hefur Björn Ingi ásamt foreldrum sínum ræktað jörðina og gert að griðastað fjölskyldunnar.

\"\"

Björn Ingi sagði í samtali við Fréttablaðið að á Másstöðum ætli hann að setjast að í framtíðinni. Þá kvaðst Björn Ingi vita um marga fleiri sem hefðu í hyggju að fá sér sitt eigið bænahús. Þá stendur til að vígja húsið á næstu dögum og verður fenginn til þess prestur. Björn Ingi sagði:

„Mér finnst mikilvægt að tala opinskátt um trúna og vera stoltur af því að trúa á bænina og mátt hennar. Það hefur kannski ekki verið mikið í tísku til skamms tíma, en ég held að það sé svolítið að breytast aftur [...] við erum öll í amstri hversdagsins að leita að einhverjum innri friði og ró.“