Fresta útgáfu bókar jóns baldvins

Fyrirhugaðri útgáfu bókar eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Bókin átti að koma út þann 21. febrúar næstkomandi, á 80 ára afmælisdegi Jóns Baldvins. Eyjan.DV.is greinir frá.

Á undanförnum dögum hefur fjöldi kvenna stigið fram, ýmist undir nafni eða í skjóli nafnleyndar, og lýst kynferðislegri áreitni af hendi Jóns Baldvins.

Bókin inniheldur ræður, rit og greinar Jóns Baldvins um „frumkvæði Íslands að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, samningana við ESB um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Norræna módelið sem raunhæfan valkost við auðræði nýfrjálshyggjunnar,“ að því er Eyjan greinir frá.

Útgáfu bókarinnar, sem var langt á veg komin, hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma. Það staðfestir Steingrímur Steinþórsson hjá útgáfufélaginu Skruddu í samtali við Eyjuna.