Fremur til bráðabirgða en framtíðar

 Í síðustu viku þurfti forsætisráðherra að svara þeirri erfiðu spurningu á Alþingi hvort hún treysti Bandaríkjunum til þess að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Íslandi. Ráðherrann vék sér hjá því að svara beint en staðfesti að hún stæði við þjóðaröryggisstefnu Íslands. Hér þarf vitaskuld að hafa í huga að ekki er einfalt að svara slíkri spurningu án undirbúnings og umhugsunar.  

En veruleikinn er sá að Bandaríkin hafa gefið þeim þjóðum sem lengi hafa verið taldar helstu bandamenn þeirra ærin tilefni til að spyrja slíkra spurninga. Erfitt er að draga aðra ályktun af svari forsætisráðherra en að ný stefna Bandaríkjanna og breytt afstaða þeirra til bandalagsþjóða hafi ekki gefið ríkisstjórn Íslands tilefni til skoða hvort traustið sem samskiptin hafa verið reist á standi óhaggað.

Nú kæmi það mjög á óvart ef forystufólk í stjórnarflokkunum hefði ekki velt þessu álitaefni fyrir sér. Reynslan sýnir að viðbrögð þurfa ekki endilega að kalla á upphrópanir eða grundvallarbreytingar. Nokkrar Evrópuþjóðir voru til að mynda fengnar að loftrýmisgæslu á sínum tíma þó að þær hafi ekki axlað hliðstæðar varnarskuldbindingar og Bandaríkin.

Pólitíski vandinn er hins vegar sá að málefnalega er ríkisstjórnin mynduð um kyrrstöðu eða  óbreytt ástand. Hún hefur því lítið svigrúm til þess að meta nýjar aðstæður og bregðast við þeim. Svar forsætisráðherra verður að skoða í þessu ljósi. Rammi samstarfsins leyfir ekki víðari hugsun.

Rökin fyrir því að mynda kyrrstöðustjórn voru fyrst og fremst þau að mikilvægara væri að koma í veg fyrir endurteknar kosningar en að mynda stjórn sem legði línur fyrir framtíðina. Þetta hefur tekist með því að láta gamlar ákvarðanir standa að mestu og taka sem fæst ný mál á dagskrá.

Stöðugt stjórnarfar er æskilegt markmið í stjórnmálum. En það er keypt afar dýru verði þegar ríkisstjórn getur ekki brugðist við nýjum aðstæðum. Alveg sérstaklega á þetta við þegar kemur að álitaefnum sem snerta varnir landsins og hvernig við tryggjum pólitíska og efnahagslega hagsmuni í alþjóðasamstarfi. 

Sama staða er uppi á stærstu sviðum innanlandsmála. Þannig hefur ríkisstjórnin sett sér markmið í heilbrigðismálum fram til 2030. En sú stefna er ekki sett í neitt samhengi við fjármálaáætlun. Í menntamálum er mörkuð stefna til langs tíma en fjáröflunin er skilin eftir í lausu lofti. Nýlega var svo birt samgönguáætlun til fimmtán ára fyrir höfuðborgarsvæðið án ákvarðana um fjármögnun.

Einhverjir kunn að segja sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð sínu fram í ríkisfjármálum með því einfaldlega að skilja samstarfsflokkana eftir með ófjármagnaðar langtímaáætlanir á þeirra málefnasviðum. Það er of ódýr skýring því að ríkisstjórnin í heild ber ábyrgð á ófjármögnuðum áætlunum.

Eftir síðustu kosningar voru kostir til stjórnarmyndunar að sönnu þröngir. En stjórn sem er þeirrar náttúru að henni er ekki ætlað að geta brugðist við nýjum og breyttum aðstæðum í alþjóðastjórnmálum og stjórn sem ekki hefur þann tilgang að fella saman langtímaáætlanir á helstu málefnasviðum við ríkisfjármálin er í raun og veru til bráðabirgða. Alltént er hún ekki mikil framtíðarstjórn.