Frásögn karlmanns í sjálfsvígshugleiðingum: „Af hverju líður mér svona illa?“

Frásögn karlmanns í sjálfsvígshugleiðingum: „Af hverju líður mér svona illa?“

„Ég hef hugsað um að drepa mig í ca. ár. 12 mánuðir þar sem ég hef pælt í hvernig áhrif það hefði á vini mína, vinnufélaga, ættingja, eiginkonu og hund. Ég hef pælt í hvernig er best að gera það þannig að enginn nákominn gæti mögulega komið að mér. Ég er mikill kvikmyndaaðdáandi og ég sé oft fyrir mér dramatískt sveitasetur með arin og plötuspilara og ég skýt mig í hausinn.“

Svo segir í nafnlausum pistli sem Karlmennskunni, samtökum sem hafa það að markmiði að frelsa karlmenn undan eitraðri karlmennsku og styðja við femíníska jafnréttisbaráttu, barst frá 33 ára karlmanni sem hefur verið að glíma við andleg veikindi síðasta árið. Hann skrifaði niður það sem gengið hefur á undanfarið ár og segist loks hafa leitað sér hjálpar.

Maðurinn rekur nánar þankagang sinn þegar hann hefur leitt hugann að því að taka sitt eigið líf: „[É]g er frekar raunsær og sé ekki fyrir mér að ég geti reddað mér byssu nema fara á námskeið eða kynnast svarta markaðnum á litla Íslandi. Ég hef hugsað mér að keyra í sjóinn. Þá á mínum bíl auðvitað svo ég sé ekki að skemma bílinn hjá konunni minni. Hún kæmist ekki í vinnuna. Svo eigum við auðvitað frekar gamlan og mikið keyrðan bíl, hún gæti aldrei haldið honum við sjálf og klukkutími á verkstæði kostar 15.000 krónur. Svo er það að komast inn á heimabankann minn. Ekki það að þar sé mikið að finna, heldur bara að sjá til þess að reikningarnir fari ekki í innheimtu og annað. Svo eigum við hund líka. Hún hefur ekki tíma í það ein.“

„Þetta eru hugsanirnar sem keyra (pun intended) um hugann á mér nánast daglega. Ég veit, eða vissi, ekki af hverju. Svo koma dagarnir þar sem ég er alveg viss um að konan mín, mamma og strákarnir spjari sig alveg án mín. Það eru dagarnir sem ég er hræddastur við. Að hvatvísin fái þá að ráða og ég klára dæmið. Ég hef í langan tíma litið á mig sem aumingja. Ég kann ekki neitt. Get ekki alltaf lagað bílinn sjálfur og kann ekki að smíða eða ganga vel frá parketi. Ég er alltof þungur og kann alveg að laga það en geri það ekki. Hvað er svona flókið við að borða betur og hreyfa sig?!“ heldur hann áfram.

Maðurinn segir sjálfshatur vera ömurlegt. „Instagram póstur um að að ég elski líkamann minn eða kaup á blandara laga það ekki. Ég græt nánast daglega og ég veit ekki af hverju. Í meira en 10 ár hefur mér liðið svona. Síðasta árið hefur þetta svarta sem vofir yfir mér stækkað og orðið þykkara. Það er erfitt að skilja af hverju. Við konan erum mjög glöð saman, gift í 6 ár, og eigum okkar eigin 5 svefnherbergja íbúð.“

Hann tekur fleiri dæmi um hvað hann hafi það gott. „Ég er í frábærri vinnu, elska vinnufélagana og allt við starfið og við búum út á landi þar sem ég get labbað í vinnuna eða tekið frían strætó. Ég á marga vini sem myndu hjálpa mér í nánast hvaða aðstæðum sem er. Ég er umkringdur fjölskyldu. Af hverju líður mér svona illa?“

33 ára að brenna út

Maðurinn leitaði sér loks hjálpar. „Ég ákvað að bíta á jaxlinn og fara til heimilislæknis og spyrja hvað í fjandanum væri að mér. Hann sat og hlustaði og ég grét meðan ég talaði. Ég var loksins að tala við einhvern utanaðkomandi. Læknirinn pantaði fyrir mig tíma hjá sálfræðingi. Það er eitthvað sem mér hefur aldrei dottið í hug að gera. Ég var samt andlega gjörsamlega búinn á því eftir tímann en leið einhvern veginn betur.“

„Eftir fyrsta tíma hjá sálfræðingi vorum við komnir með plan. Ég ætlaði að reyna að minnka álag og ráða sjálfur mínum tíma og ekki eyða honum í aðra nema að mig langaði til. Ég reyndi að kortleggja tilfinningarnar og hvaðan þær koma. Við komumst að því að ég væri að brenna út. 33ja ára að brenna út.“

Hann bendir á að álag geti komið úr ýmsum áttum. „Ég var ítrekað að gera hluti sem ég vildi ekkert endilega gera. Hjálpa hinum og þessum, vinna þrjár vinnur því að ég vildi ekki bregðast neinum og það bitnaði á mér. „

„En ég hef alltaf verið svona. Ég hef aldrei getað sagt nei. Eftir fyrsta nei-ið eftir sálfræðitímann leið mér betur. Ég ákvað að nota tímann sem hefði farið í það að hjálpa einhverjum sem þurfti ekkert endilega MÍNA hjálp í mig sjálfan það var gott.“

Eitruð karlmennska plagað

„Eftir annan tímann þá held ég áfram. Ég er ekki kominn langt en ég stefni á að sjá sólina á þessu ári. Þetta dökka ský sem er inni í mér er suma daga stærra en aðra en það verður bara að hafa það. Ég er með plan,“ segir maðurinn.

Hann bætir við að eitruð karlmennska hafi plagað sig lengi. „Hvort sem það er að ég held að ég get gert allt sjálfur eða að hugsa að andleg veikindi séu aumingjaskapur. Ég mæli með að fólk leiti sér hjálpar. Það er þess virði, það er fólk þarna úti sem getur hjálpað. Maður þarf að kyngja stoltinu.“

Þess virði að leita sér hjálpar

Maðurinn bendir á að verkalýðsfélög og jafnvel starfsmannafélög endurgreiði sálfræðiskostnað að hluta. „Í mínu tilviki borga þau 10000 kall af hverjum tíma. Ég borga þá 5000 fyrir tímann sem er svolítið mikill peningur en hann er þess virði.“

„Það er þess virði að fá að vita hvað er að svo maður geti tæklað vandamálið. Að fá utanaðkomandi feedback á það hvernig manni líður er fáránlega gott. Að sjá hlutina hinum megin frá. Það er ömurlegt að líða illa,“ segir hann að lokum.

Þykir ekki karlmannlegt að viðurkenna vanda sinn

Í færslu Karlmennskunnar á Facebook þar sem ofangreindri reynslusögu er deilt er því velt upp af hverju  40 prósent karlmanna sem láta lífið á aldrinum 15- 29 ára falli fyrir eigin hendi, samanborið við 19 prósent kvenna á sama aldursbili.

Þar segir að ástæður þess að fólk taki eigið líf séu fjölmargar og afleiðing samverkandi þátta. Enginn geti í raun bent á algilda skýringu. Hvers vegna svo stór hluti andláta karlmanna megi rekja til sjálfsvígs er sömuleiðis sögð ráðgáta.

„Karlmennskuhugmyndir eru vafalaust ekki til þess fallnar að gera mönnum auðveldara með að takast á við þær aðstæður sem leiða af sér sjálfsvíg. Enda þykir það ekki karlmannalegt að viðurkenna vanda sinn, viðurkenna vanmátt sinn, leita sér hjálpar, tala um tilfinningar eða hafa ekki stjórn á aðstæðum. Því þarf að breyta. Á meðan við erum að endurskilgreina karlmennskuna, víkka út hugmyndina, þá verðum við að muna að það er alltaf önnur leið út en að enda líf sitt,“ segir í færslunni.

Nýjast