Framúrkeyrslan vegna fiskiðjuhússins yfir 330 milljónir

Framkvæmdakostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna Fiskiðjuhússins við Ægisgötu var árið 2017 áætlaður 269 milljónir. Í dag er heildarkostnaðurinn hinsvegar kominn yfir 600 milljónir og er talið að heildarkostnaður endi í um milljarði króna, samkvæmt fyrrverandi bæjarfulltrúa. Fyrirhugað er að bæjarskrifstofurnar verði fluttar í húsið í fyllingu tímans, en framkvæmdum er ekki að fullu lokið. Eyjar.net hafa greint frá málinu.
Framsetning sögð villandi
 

Deilt var um málið árið 2016 á fundi framkvæmda- og hafnarráðs. Til grundvallar lá verkfundagerð og minnisblað  þar sem fram kom að heildarkostnaður framkvæmda utanhúss, hreinsunar og uppbyggingar innanhúss, yrði 270 milljónir, sem dreifðist yfir árin 2014-2017. Þegar Georg Eiður Arnarson, þá fulltrúi E-listans lét bóka harm sinn vegna framúrkeyrslu á kostnaði framkvæmda utanhúss, úr 158 milljónum í allt að 300 milljónir, lét fulltrúi Sjálfstæðisflokks bóka eftirfarandi:

„Kostnaðaráætlun vegna utanhússframkvæmda var 158 milljónir króna og stefna í það að verða 184 milljónir króna. Í minnisblaði framkvæmdastjóra kemur fram að heildarkostnaður Vestmannaeyjabæjar við framkvæmdir í Fiskiðjunni sé áætlaður 270 milljónir króna. Er þar með talið frágangur og hreinsun innanhúss sem ekki voru í áætlunum utanhússframkvæmdar enda um annað verk að ræða. Uppsetning fulltrúa E-lista er því villandi og röng.“