Leifsstöð, lundabúðir og sögubækur

Þátturinn Ferðalagið í kvöld fer yfir framtíð Leifsstöðvar, umdeildar lundabúðir, ferðir Einars Kára austur og vestur og heyrir af hulduþjóðum Evrópu.

Rætt er við Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia um framtíð Keflavíkurflugvallar. Mikið liggur á að stækka völlinn og hlaupa framkvæmdir á milljörðum króna.  

Sigurður Guðmundsson, Akureyringur rekur fimm lundabúðir, þar af þrjár í Reykjavík og tvær á Akureyri. Ferðalagið heimsækir hann í búðina í Hafnarstræti og ber undir hann illt umtal lundabúða, eins og þær eru kallaðar og hvort merkingin “made in Iceland” sé villandi á vörum í slíkum ferðamannabúðum.

Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur segir Sigmundi Erni frá hulduþjóðum Evrópu, eins og hann kallar þær og heiti nýrrar bókar sinnar. Þorleifur fjallar um hátt í fjörutíu hulduþjóðir í Evrópu sem eru lítt þekktar en hann er líka þekktur fyrir fararstjórn til fáfarinna landa.

Og síðast en ekki síst þá fer Einar Kárason yfir ferðasögur sínar austur og vestur um haf, ferðir sem hafa markað líf hans og bækur, sögur og skrif.

Ferðalagið hefst kl.21.30 í kvöld. Þátturinn er í umsjón Lindu Blöndal og Sigmundar Ernis.