Framsókn snýr til baka

Framsókn snýr til baka

 

Horfa má á formannskjörið í Framsókn um liðna helgi frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar losaði það um spennu sem var orðin flokknum mjög erfið í kjölfar Panamaskjalanna. En að hinu leytinu er Framsókn að snúa baki við þjóðernispopúlistatilrauninni sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stóð fyrir. Hún virðist nú úr sögunni.

Sennilega hefði Sigmundur Davíð getað haldið betur á málum þegar Panamaskjölin voru opinberuð. En eins og hlutirnir þróuðust var staðan orðin flokknum harla erfið. Hann var kominn í eins konar bóndabeygju.

Nú er Framsókn laus úr bóndabeygjunni. Það ætti að létta róðurinn í kosningabaráttunni. Hugsanlega fær flokkurinn einnig meira svigrúm í stjórnarmyndunarviðræðum. Í því sambandi má hafa í huga að Samfylkingin og VG opnuðu leið að hjarta Framsóknar í atkvæðagreiðslunni um búvörusamningana á dögunum. En það mál tengir þó stjórnarflokkana best saman.

Pólitísku breytingarnar sem verða með þessu formannskjöri eru í raun miklu merkilegri en mannaskiptin sjálf. Framsókn var komin í blindgötu þegar Sigmundur Davíð tók við forystunni. Hann hvarf ekki frá þröngri hagsmunagæslu en færði nýja vídd inn í flokkinn með þjóðernispopúlisma að evrópskri fyrirmynd.

Svo virðist sem með honum hafi komið nokkuð áhrifarík sveit manna. Engin merki eru um klofning þótt formannsbaráttan hafi verið hatrömm. En eigi að síður bendir fátt til að hugmyndaríkir menn úr þeirri sveit sem staðið hefur næst Sigmundi Davíð verði útungunarvél nýrra hugmynda á næstunni.

Nú má sannarlega deila um þjóðernispopúlismann. Það er engin eftirsjá í tilraun Framsóknar með hann. En fram hjá því verður ekki litið að hann færði nýjan kraft í Framsókn. Hún varð óútreiknanlegra afl í pólitíkinni en áður. Og hún varð nútímalegri í þeim skilningi að popúlisminn er pólitískt tískufyrirbæri í Evrópu.

Nú snýr Framsókn til baka, aftur til upprunans. Um leið missir hún þann kraft og þá vídd sem fylgdi Sigmundi Davíð.  Eftir stendur gamla, rólega og þrönga hagsmunagæslan.

Í fljótu bragði verður ekki séð að gamla Framsókn eigi sterkara erindi en fyrir átta árum þegar Sigmundur Davíð kom eins og stormsveipur inn í flokkinn og hristi upp í hlutunum.  Nýja forystan er sannarlega ekki eins umdeild. Og það er spurn eftir yfirvegun og rósemd í pólitíkinni.  En málefnastaða nýrrar forystu  er æði langt frá þeim umbreytingum sem nútíminn kallar á.

 

 

 

 

 

 

Nýjast