Framsókn sækir mest á

MMR hefur birt nýja skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Þar kemur fram að Framsókn er í mestri sókninni. Fylgi Framsóknar mældist 6,4 prósent í byrjun júlí, 8,3 prósent fyrir einum mánuði en nú mælist það 10,6 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,6 prósent samkvæmt könnuninni sem er nánast sama fylgi og síðast. Píratar missa fylgi, mælast nú með 22,4 prósent en voru með 26,8 prósent fyrir mánuði.

VG mælist með 12,4 prósent sem er svipað og síðast en langtum minna en í byrjun júlí, þegar fylgið mældist 18 prósent.

Samfylkingin mælist nú með 9,1 prósent, Viðreisn með 8,8 prósent og Björt framtíð með 4,5 prósent.

Önnur framboð mælast með mun minna fylgi, þó ber að geta þess að Sturla Jónsson, sem var einn í framboði síðast, en er nú í framboði fyrir Dögun mælist með 2,1 prósent og Dögun er með 1,1 prósent, samtals 3,2 prósent.