Framkvæmdastjóri bónus ósáttur: „þessi karfa er bara handvalin af así til að fá þessa niðurstöðu“

Samkvæmt nýjustu verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru er Krónan ódýrasta matvöruverslunin á Íslandi. Fjarðarkaup er næstódýrust og Bónus er þriðja ódýrasta verslunin. Framkvæmdastjóri Bónus segist alls ekki sáttur við könnunina. Fréttablaðið greinir frá.

„Bónus er langódýrast. Þessi karfa er bara handvalin af ASÍ til að fá þessa niðurstöðu,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið í dag. Síðustu þrjá áratugi hefur Bónus iðulega mælst ódýrasta verslunin, þó nokkrum sinnum hafi munað litlu.

„Þau segjast velja einhverja vöru af handahófi, en ef þú tekur vörurnar sem fást á báðum stöðum þá sérðu bara hvernig þetta er í raun og veru. Þetta er bara ákvörðun hjá þeim. Ég gef ekki mikið fyrir þessa verðkönnun,“ bætir hann við.

Ætla sér að halda toppsætinu

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segist ánægð með niðurstöðuna.

„Okkar loforð er að koma vörum til viðskiptavina okkar á sem ódýrastan hátt. Við keppumst við það alla daga og það er mjög ánægjulegt þegar það skilar sér,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Gréta María segir að Krónan hyggist halda sér í toppsætinu. „Algjörlega. Ég get alveg fullyrt að það að við séum á markaðnum gerir það að verkum að matvöruverð á Íslandi er lægra en það væri annars.“ 

Þrátt fyrir að vera á toppnum nú segist hún kannast við gagnrýnina í garð verðkannana ASÍ:

„Það eru oft inni á milli vitleysur, oft eru þeir sem taka könnunina ekki að taka nákvæmlega sömu vöru. Við höfum alveg lent í því að vera sýnd dýrari en við erum. Verðmunurinn er mjög lítill á milli Krónunnar og Bónus, við erum mjög ánægð með að vera í þeirri stöðu.“

Uppfært kl. 11:38: ASÍ hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að það sé rangt, sem bæði Vísir og Fréttablaðið fullyrða, að Krónan sé með lægsta verðið í könnuninni.