Fósturfjölskylda er lokaúrræðið

„Það eru um 430 börn í fóstri á Íslandi, 0,5 prósent barna. Ástæðurnar eru margvíslegar, en þetta eru ótrúlega misjöfn mál. Oftast tengist það því að barnið getur ekki búið á sínu heimili hjá sínum foreldrum. Það er alltaf búið að reyna mjög mikinn stuðning og þetta er náttúrulega lokaúrræði, þetta er mest íþyngjandi úrræði sem við höfum í Barnaverndarnefnd,“ segir Erla Guðrún Sigurðardóttir félagsráðgjafi hjá Barnavernd Kópavogs.

Erla Guðrún og Arna Kristjánsdóttir félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Á þingi félagsráðgjafa í síðustu viku stýrðu þær málstofu um barnavernd og fósturbörn.

Á málstofunni var rætt um þróun fósturráðstafana á Íslandi og sagt frá því hvernig staðið er að mati á hæfni fósturforeldra. Á meðal umræðuefna voru einnig umgengni í fóstri, hvernig ákvarðanir eru teknar um umgengni í fóstri og hvernig hagsmunir barns eru best metnir.

Tegundir fósturs geta verið af ýmsu tagi. „Sumir eru í varanlegu fóstri, þá er fóstri ætlað að vara til 18 ára aldurs. Svo eru hluti af þeim sem eru í tímabundnu fóstri en þeim börnum er ætlað að fara aftur heim til foreldra. Svo erum við með styrkt fóstur sem eru frekar færri börn, það eru svona 30 börn á ári sem eru í styrktu fóstri. Þá eru gerðar svona sérstaklega ríkar kröfur til fósturforeldranna og gert ráð fyrir því að annað foreldrið sé með einhvers konar menntun sem geti reynst börnunum vel í fóstrinu og annað foreldrið þarf að vera heimavinnandi til þess að geta sinnt vanda barnsins. Þá er vandi barnsins oft umfangsmeiri en gengur og gerist,“ segir Arna.

Þær vilja gjarna fá fleiri umsóknir frá fólki um að taka börn í fóstur. „Það eru um 60 umsóknir á ári sem berast til Barnaverndarstofu og einhver hluti þeirra er væntanlega ættingjar. Ég held að allir geti verið sammála um það að við viljum fá fleiri umsóknir en færri því við viljum hafa úr fleiri valmöguleikum að velja fyrir þau börn sem við þurfum að koma fyrir í fóstur,“ segir Erla Guðrún.

Nánar er rætt við Erlu Guðrúnu og Örnu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.