Varar Pólverja við að fara úr ESB

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins:

Varar Pólverja við að fara úr ESB

Það vakti athygli þegar forseti leiðtogaráðs Evrópusambndsins, Donald Tusk, varaði við því í vikunni að Pólverjar gætu verið á leið út úr Evrópusambandinu. Hann segir að ráðandi stjórnmálaflokkur í Póllandi, flokkur Laga og réttlætis í Póllandi berjist fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu. Líkt of víðar um heim hefur öfga-hægri öflum vaxið ásmegin í Póllandi.

 

Af hverju er mikilvægt fyrir Ísland að fylgjast vel með þessari þróun? Útganga Pólverja úr Evrópusambandinu myndi hafa afgerandi neikvæð áhrif á þróun Evrópusamstarfsins. Veikara samstarf Evrópuþjóða ógnar íslenskum hagsmunum. Vildi nefna fjögur atriði af þetta skiptir miklu máli á Íslandi: 

 

Í fyrsta lagi er þetta enn ein birtingarmynd aukinnar einangrunarhyggju og þjóðernisrembings gegn alþjóðasamstarfi þjóða. Þetta er á skjön við kröfu nútímans um nauðsynlega samvinnu þjóða vegna viðskipta, umhverfismála og svo mætti lengi telja. Fámenn ríki á borð við Íslandi ætti að standa ógn af þessari þróun. Við eigum mikið undir því að eiga sem mesta samvinnu við aðrar þjóðir ekki síst í Evrópu. Frjáls og opin viðskipti yfir landamæri er okkur lífsnauðsynleg.

 

Í öðru lagi eins og Donald Tusk hefur einnig bent á myndi útganga Pólverja úr Evrópusambandinu hafa neikvæð áhrif á varnarhagsmuni Evrópuþjóðanna. Þetta yrði óskastaða Kremlar segir Tusk. Varnarhagsmunir Íslands eru hér þeir sömu og varnarhagsmunir Evrópusambandsins gagnvart rússneskum yfirgangi. Mikilvægi þess að Evrópuþjóðirnar standi saman gegn Rússum hefur ekki síst aukist með tilkomu Trump einangrunarsinnans og forseta Bandaríkjanna.

 

Í þriðja lagi er vert að benda á að fari Pólland sömu leið og Bretar með Brexit myndi það hafa afgerandi neikvæð áhrif á atvinnu- og búseturéttindi þúsunda Pólverja hér á landi. Þeir telja nú tæp 14 þúsund hér landi. Það myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnulíf hér á landi. Ríflega einn af hverjum tíu íbúum eru innflytjendur. Langflestir innflytjenda á Íslandi eru Pólverjar. Þeirra atvinnu- og búseturéttindum yrði ógnað.

 

Í fjórða lagi bera að nefna að verði íslenskum hagsmunum ógnað ætti það að hafa áhrif á stjórnmálin hér á landi. Það skiptir máli í íslenskri pólitík að systurflokkur Sjálfstæðisflokksins skuli vera sá er myndi leiða útgöngu Póllands úr Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn, Morgunblaðið, útgerðin og landbúnaður, hefur sett sig upp á móti aukinni samvinnu Evrópuþjóðanna. Forystumenn flokksins hafa talað á torgum gegn Evrópusambandinu.

 

Utanríkisráðherra Íslandi, Guðlaugur Þór Þórðarson,  var á sínum tíma mikill hvatamaður að því að Bretland sliti sig út úr Evrópusambandinu. Svo mikil var andhúð hans á Evrópusambandinu að hann lagðist í furðuleg greinarskrif í breska blaðið The Telegraph á sínum tíma þar sem hann listaði upp vangaveltur sínar og vonir af hverju Bretar ættu að segja sig úr Evrópusambandinu. Vandinn fyrir Guðlaug nú, er að sömu rök ættu að gilda um úrsögn Pólverja. Af hverju hvetur ráðherrann ekki Pólverja með sama hætti? Af hverju þegir hann þunnu hljóði? Það skyldi þó ekki vera að hann sé farinn að gera sér grein fyrir að veikara Evrópusamband getur ógnað íslenskum þjóðarhagsmunum?

Nýjast