Okkar forsætisráðherra safnar páskaungum – sá elsti 40 ára

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo lengi mæti telja. Sjöfn Þórðar heimsótti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formann Vinstri grænna í Stjórnarnráðið og fékk hana til að deila með okkur sínum hefðum og siðum. Katrín lumar á ýmsum skemmtilegum siðum og hefðum eins og safna páskaungum og hennar uppáhalds réttur á páskunum eru hinar gómsætu frönsku crepes pönnukökur.

Hvað er eftirminnilegast við páskahátíðina í bernsku þinni?

„Páskar bernsku minnar voru alltaf mikil friðarhátíð, þá var gjarnan farið að vora og við fórum oft í fjöruferðir eða fjallgöngur til að fagna náttúrunni og vorinu.“

Hver er þinn uppáhalds páskamatur?

„Minn uppáhalds páskamatur er páskalambið sem við eldum með nýjum hætti hverja páska.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir í tengslum við páskana?

„Já, ég held í þá hefð að fara með fjölskylduna út í náttúruna.“

Skreytir þú heimilið þitt á páskunum?

„Já reyndar, og þetta er kannski aðalhefðin, því ég safna páskaungum af páskaeggjum og á 40 ára safn fyrir utan þá sem ég hef fengið gefins. Þannig að ég set þá alla upp um hverja páska. Svo set ég stundum túlípana í vasa.

Páskaliturinn þinn?

„Er ekki páskaliturinn alltaf gulur?“

Borðar þú páskaegg?

„Já.“

Uppáhalds páskaeggið þitt?

„Ég er með mjög opinn smekk þegar kemur að páskaeggjum.“

Áttu þína uppáhalds rétt, hnallþóru eða brauðrétt sem þú ert alltaf með á páskunum?

„Einn réttur eru franskar crepes sem stundum eru bakaðar um páska, því þá hefur maður tíma og þá er gaman að hafa alls konar fyllingar.“

Viltu gefa okkur uppskriftina af þeim rétti, köku eða brauðrétti sem þú útbýrð/bakar ávallt á páskunum?

„Þessi uppskrift er úr bók eftir Sigríði Gunnarsdóttur og Silju Sallé sem geymir uppskriftir frá ólíkum héröðum Frakklands. Þetta eru sem sagt bretónskar pönnukökur sem eru ósætar og mikil stemning að baka og borða.

Bretónskar pönnukökur

250 g bókhveiti

50 g hveiti

1 egg (eða jafnvel 2)

2 msk. olía

salt á hnífsoddi

500 ml vatn

smjör

Blandið saman hveiti, bókhveiti, salti, matarolíu og eggi. Hrærið vel í og bætið svo vatni út í, smátt og smátt. Látið deigið bíða í eina klukkustund. Bakið svo bara eins og íslenskar pönnukökur. Ef fólk býr svo vel að eiga tvær pönnur flýtir það fyrir og best er að borða kökurnar heitar. Setjið smjörbita á hverja köku meðan hún er heit. Og svo er það aðalmálið sem er fyllingin. Við höfum bara úrval á borðinu en til að mynda er þetta gott:

Reyktur lax, sýrður rjómi, graslaukur eða dill.

Hörpuskel steikt í smjöri og hvítlauk.

Skinka, rifinn ostur og spæld egg.

Svo er nauðsynlegt að hafa grænt salat með og leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín í fyllingunum.

 

Mynd Eva Björk ljósmyndari