Forsætisráðherra ætlar að kanna viðhorf íslendinga til stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur í samráði við fulltrúa allra flokka sem sæti eiga á Alþingi ákveðið að fela Félagsvísindastofnun HÍ að kanna viðhorf Íslendinga til stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs og segir forsætisráðuneytið að könnunin sé liður í því.

Forsætisráðuneytið segir að meginmarkmiðið með viðhorfskönnuninni sé að draga fram sameiginleg grunngildi íslensku þjóðarinnar, að kanna viðhorf til tillagna sem komið hafa fram á undanförnum árum að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og kortleggja sýn almennings á þau viðfangsefni stjórnarskrárendurskoðunar sem tekin eru fyrir á þessu kjörtímabili. 

Ráðuneytið stefnir að því að gögn úr könnuninni nýtist jafnframt í tengslum við rökræðukönnun sem haldin verður í nóvember næstkomandi. um afmörkuð atriði stjórnarskrárendurskoðunarinnar. Rökræðukönnun byggir á viðhorfskönnuninni enda eiga niðurstöður viðhorfskönnunar að nýtast til frekari umræðna frekar en að þjóna sem endanleg niðurstaða um fylgi eða andstöðu við einstakar breytingar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fór fram í október 2012, þar sem 67% kjósenda vildu að tillögur stjórnlagaráðsins yrðu lagðar til grundvallar fyrir frumvarp að nýrri stjórnarskrá.