Forsætisnefnd staðfestir brot þórhildar sunnu

Meirihluti forsætisnefndar Alþingis hefur fallist á niðurstöðu siðanefndar Alþingis um að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi brotið siðareglur þingmanna með ummælum sínum um akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Silfrinu á RÚV í febrúar í fyrra. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Ummæli Þórhildar Sunnu, sem siðanefnd Alþingis ákvarðaði að brytu gegn siðareglum þingmanna, voru eftirfarandi:.

„Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“

Eftir að Þórhildur Sunna viðhafði ummælin kvartaði Ásmundur til forsætisnefndar, sem vísaði málinu til siðanefndar. Forsætisnefnd hefur nú staðfest úrskurð siðanefndar og verður álit forsætisnefndar birt á vef Alþingis í dag.

Í áliti siðanefndar hafði komið fram að tilgangur siðareglnanna væri ekki að takmarka tjáningarfrelsi þingmanna en að af siðareglunum leiði að það geti haft þýðingu hvernig tjáningu er sett fram og við hvaða aðstæður. Skorður sem siðareglurnar setji lúti því ekki að efni tjáningarinnar heldur að ytri búningi hennar, til dæmis hvað varðar háttvísi og aðferð.

Forsætisnefnd ákvað að hafna þeim athugasemdum Þórhildar Sunnu að rétt hefði verið að siðanefndin legði mat á sannleiksgildi ummælanna og að því bæri að vísa málinu aftur til siðanefndar til nýrrar meðferðar. Forsætisnefndin metur það sem svo að siðareglurnar geri ekki ráð fyrir því að nefndin fari með úrskurðarvald um sannleiksgildi ummæla sem koma til skoðunar vegna siðareglna.

Hefði verið friðhelg í pontu

Líkt og Hringbraut greindi frá þann 20. maí síðastliðinn hefði Þórhildur Sunna verið friðhelg vegna ummælanna ef þau hefðu fallið í pontu á Alþingi. Þar sem hún lét þau falla í sjónvarpsþætti stóð hún hins vegar frammi fyrir þeim möguleika að verða dæmd brotleg við siðareglur þingsins.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lét einmitt reyna á þetta degi síðar, 21. maí, þegar hann viðhafði nákvæmlega sömu ummæli og Þórhildur Sunna lét falla í Silfrinu á RÚV sunnudaginn 25. febrúar 2018. Hefur hann vísast gert það til að benda á hversu skökku þetta skjóti við.

Sönn ummæli túlkuð sem siðabrot

Í bókun sinni vegna málsins segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, að tilgangur siðareglnanna sé að koma í veg fyrir að þingmenn misnoti aðstöðu sína til að hygla sjálfum sér á kostnað almannahags. Skilaboð meirihluta forsætisnefndar til þingmanna séu skýr, þ.e. að það teljist ekki brot á siðareglum að óska eftir og fá meira greitt af almannafé en gildandi reglur heimili. Það teljist hins vegar brot að segja að slík háttsemi skapi rökstuddan grun um brot sem þurfi að rannsaka.

„Sönn ummæli Þórhildar Sunnu um mögulega spillingu eru túlkuð sem siðabrot á Alþingi,“ segir Jón Þór um niðurstöðu meirihluta forsætisnefndar.  

Hann segir að með þessari niðurstöðu sé siðareglunum snúið á haus. „Þessi afgreiðsla er til þess fallin að fela mögulega spillingu og þagga niðri í þeim sem vilja uppræta hana. Þessi afgreiðsla gengur gegn tilgangi siðareglnanna.“