Fordæmir sjálftöku þingmanna

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður fordæmir sjálftöku þingmanna á síðustu árum - og undrast jafnframt að fréttamenn hafi lítt eða ekkert fjallað um hana.

Þetta kom fram í Ritstjórunum á Hringbraut í gærkvöld þar sem Sighvatur fór mikinn ásamt Styrmi Gunnarssyni um agaleysið í íslensku samfélagi og ábyrgðarleysi kjörinna fulltrúa, embættismanna og stjórnsýslunnar. Sighvatur segir ákvarðanir kjararáðs nógu vondar í sjálfu sér, en í þeim efnum megi menn heldur ekki gleyma hvað þingheimur hafi hlaðið undir sig á síðustu árum og misserum - og hafi haft um það algert sjálfdæmi. Sjálfur hafi hann verið formaður þingnefndar á sínum tíma, án aukaþóknunar - og formaður flokks, sömuleiðis án aukaþóknunar, svo og í forsætisnefnd, án aukaþóknunar, en nú sé málum háttað svo að allskonar aukasporslur bætist við þingfararkaupið sem pólitíkusarnir ákveði upp á eigin spýtur. Á þetta horfi almenningur, hreint gáttaður - og lætur sig auðvitað dreyma um álíka kjarabætur.

Ritstjórarnir eru hluti frétta- og umræðuþáttarins 21 og eru endursýndir í dag og í úrvali helgarinnar á laugardagskvöld.