Fordæmir fréttamennsku 365

Lára Hanna Einarsdóttir, samfélagsrýnir, fordæmir blaðamennsku 365 í gærkvöld. Þá fór fréttamaður Stöðvar 2 á Kvíabryggju með tökumanni og tók viðtal við Ólaf Ólafsson fjárfesti, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg.

„Stöð 2 misbauð mér í kvöld með ósvífnum hætti. Ég veit ekki hvað fréttastofunni og Íslandi í dag gekk til, en það er hvorki siðlegt né til eftirbreytni,“ skrifaði Lára Hanna á eigin fésbókarvegg seint í gærkvöld og lét fylgja með myndband af viðtalinu.

„Bankaræningjar voru dæmdir í fangelsi, dómurinn var svo harðorður og afdráttarlaus að annað eins hafði ekki sést hér á landi. Einbeittur brotavilji, þaulskipulögð svikamylla og ótalmargir misstu aleiguna,“ srkrifar Lára Hanna.

Ekkert slíkt kom þó fram í vinnu 365 í gærkvöld. Mikið virtist lagt upp úr að höfða til samúðar áhorfenda, þeim sjónarmið þremenninganna var síendurtekið lyft að þeir væru þolendur, fórnarlömb en ekki gerendur.

Lára Hanna rifjar í færslu sinni upp það sem sagði Í hæstaréttardómni.

„Háttsemi ákærðu... fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns.“
Einnig:
„Brotin [...] beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár.“
Í þriðja lagi: „Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Og í fjórða lagi:
„[Brotin] voru þauskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“

Ekki eru allir eins afdráttarlausir í skoðun á blaðamennskunni því á félagsmiðlum hefur einnig mátt lesa að viðtalið hafi verið gott og það hafi verið gefandi að sjá mannlega hlið afbrotamannanna.

Fagmenn í fréttamennsku undrast þó að gagnrýnar spurningar hafi með öllu vantað. Þá hefur 365 með leiðaraskrifum í Fréttablaðinu og víðar haldið uppi vörn fyrir hvítflibba sem sitja í fangelsi og hafa tengsl í þeim efnum margoft komið til umræðu þannig að trúðverðugleiki fréttamennskunnar er viðkvæmur að því er fram hefur komið hjá blaðamönnum á féllagsmiðlum.

Þá hefur verið spurt hvort „venjulegir fangar“ gætu fengið slíkt viðhafnarviðtal, sem augljóslega gæti nýst þeim til endurreisnar, en athygli vakti að enga iðrun mátti finna i orðum þremenninganna.

Lára Hanna segir: „Þarna sátu þrír af fjórum brotamönnum og tjáðu sig um hvað þeir ættu bágt, einn talaði um börnin sín og allir voru sannfærðir um sakleysi sitt. Sögðust ekki hafa verið dæmdir eftir „alvöru lögum“. Mennirnir sem rændu Ísland og eiga að öllum líkindum milljarða í skattaskjólum. Og - ef ég man rétt - hafa verið dæmdir fyrir fleiri glæpi. Ekki vottaði fyrir neins konar iðrun. Engri.“

Um Þorbjörn Þórðarson fréttamann sem tók viðtalið segir Lára Hanna:

„Fréttamaðurinn spurði svo leiðandi spurninga að ég hrökk hvað eftir annað í kút. Hann lagði föngunum til skoðanir og tilfinningar og spurði svo „er það ekki?“ Brotamennirnir voru að sjálfsögðu sammála fréttamanninum, sem mærði þá og vitsmuni þeirra eftir viðtalið. Var þetta erindi Jóns Ásgeirs þegar hann heimsótti þá nýverið?“

Lára Hanna endar pistil sín á fésbók á eftirfarandi: „Og ég segi bara guði sé lof fyrir Ríkisútvarpið - almannaútvarpið og -sjónvarpið okkar allra. Getið þið ímyndað ykkur fréttirnar sem við fengjum ef Þjóðarútvarpið/sjónvarpið væri markaðsvætt og undir hæl auðmanna?“

Viðtalið má sjá hér.
.