Fordæma launahækkun lilju bjarkar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eru á meðal þeirra sem fordæma launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans. Vísir.is greinir frá.

Fréttablaðið greindi frá því á laugardaginn að laun Lilju Bjarkar hafi hækkað um 82 prósent frá árinu 2017. Katrín sagði í samtali við RÚV í dag að ákvörðun bankaráðs Landsbankans væri óskiljanleg og úr takti við almenna launaþróun í samfélaginu, langt umfram t.d. umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafi nú brugðist við.

„Við höfum lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna skuli héðan í frá vera fastbundin launaþróun á hinum opinbera markaði. Þannig að mér finnst þessi ákvörðun auðvitað vera úr öllum takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir,“ segir Katrín.

Í Facebook færslu segir Ásmundur Einar eilífar hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja vera óþolandi. Sérstaklega slæmt sé að ríkisbankinn hækki laun á sama tíma og aðrir eru varaðir við vegna kjarasamninga. Hann útilokar ekki inngrip ef bankasýsla ríkisins og bankaráð Landsbankans geti ekki sýnt fram á að geta stýrt fyrirtækjum í almannaeign. „Í hreinskilni sagt þá fer þolinmæði mín þverrandi gagnvart þessu rugli,“ skrifar Ásmundur Einar.

Halldór Benjamín gagnrýndi ákvörðunina sömuleiðis harðlega í samtali við Fréttablaðið í morgun. Hann segir þessa ákvörðun bankaráðs óskynsamlega og óverjandi. „Hækkunartakturinn stenst enga skoðun eða viðmið á vinnumarkaði. Til allrar hamingju er þetta undantekning frekar en regla hjá stærstu fyrirtækjum landsins. Það gerir hins vegar hvorki lítið úr alvarleika málsins né þeim dómgreindarbresti sem birtist í þessari ákvörðun.“