„fólk sækir sér ekki læknisaðstoð vegna þess að það er of dýrt“

Ágúst Einarsson, prófessor emeritus í hagfræði við Háskólann á Bifröst sendi nýverið frá sér hina merkilegu bók Íslensk heilbrigðismál í alþjóðlegu samhengi, sem geymir hafsjó af upplýsingum um heilbrigðiskerfið á Íslandi. Ágúst er gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir bókina og ástand heilbrigðiskerfisins hér á landi.

„Á sumum sviðum erum við að borga meira en aðrir, þ.e.a.s. almenningur, og kannski á öðrum sviðum eitthvað minna. Almennt er greiðsluþátttaka almennings mikil hér, nokkuð mikil þó megnið sé borgað af hinu opinbera. Hið opinbera eru náttúrulega skattar þessa sama almennings, það má ekki gleyma því,“ segir Ágúst.

Aðspurður hvort greiðsluþátttaka almennings hafi verið að aukast segir Ágúst: „Hún hefur frekar verið í þá áttina, þetta er eitt af því sem þarf að gæta að, því meginatriðið með heilbrigðismálum er að gæta að jafnræði. Það er ekki bara skilvirknin og hagkvæmnin og kostnaðurinn, það er líka jafnræði. Að menn hafi sömu skilyrði, að við séum ekki með, alveg eins og kemur fram í bókinni, fátækt fólk sem sækir sér ekki læknisaðstoð. Það eru tölur um það hér og það hefur verið að aukast. Fólk sækir sér ekki læknisaðstoð vegna þess að það er of dýrt.“

Fólk er því farið að neita sér um sjálfsagða þjónustu vegna fjárhags. „Það er t.d. áberandi að fólk geri það hér í sambandi við tannlækningar, og það er náttúrulega grafalvarlegt mál. Tannlækningar eru þess eðlis, það að fá tannverk sem hverfur ekki, það eru kvalir. Það eru töluvert margir sem geta ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar. Þetta er aukinn vandi. Við erum að takast á við þetta á vissum sviðum, gagnvart börnum og fullorðnum og annað, en það er aukinn vandi og við þurfum, ef við ætlum að hafa þetta jafnræði í hávegum, þá þurfum við að gæta að fólki sem getur lent á milli,“ bætir Ágúst við.

„Það helst alveg í hendur, tekjur fólks og hvernig heilsa þess er. Þeim mun efnaðra sem fólk er, þeim mun betri telur það heilsu sína vera, og er líklega. Fátækara fólk glímir við meiri heilbrigðisvandamál. Þetta er beint samhengi sem er sýnt fram á þarna,“ segir Ágúst einnig.

Nánar er rætt við Ágúst í 21 í kvöld. Þátturinn hefst eins og ávallt klukkan 21:00.