Flestir búa í foreldrahúsum á íslandi

Fjórtán prósent fólks á aldrinum 25-34 ára býr í foreldrahúsum á Íslandi miðað við aðeins um 6 prósent sama hóps á hinum Norðurlöndunum

Íbúðalánasjóður birtir samantekt á vefsíðu sinni um ólíkt umhverfi leigutaka á Norðurlöndunum: í íslenskum lögum segir: „húsaleiga skal vera sanngjörn og eðlileg“. Í Svíþjóð: „Leiga ákveðin í árlegum samningum samtaka leigjenda og leigusala“ og í Noregi: „Að jafnaði óheimilt að gera tímabundna leigusamninga og leiga má aðeins hækka einu sinni á ári og þá í takt við vísitöluhækkanir“.

 Fram kom á fundi sem Íbúðalánasjóður stóð fyrir í vikunni, um leigumarkaðinn og stofnun óhagnaðardrifinna leigufélaga, að Ísland skeri sig úr í samanburði við hin Norðurlöndin þegar kemur að hlutfalli fólks á aldrinum 25-34 ára í foreldrahúsum.

 Á fundinum kom fram að aðilum hér á landi sé frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvort og með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Hins vegar vakni spurningar um það, þegar þessi ákvæði séu skoðuð, hvort til séu hér á landi skýr viðmið um það hvað teljist vera sanngjörn og eðlileg leiga.

Þar kom fram að í Svíþjóð séu til að mynda starfrækt samtök leigjenda sem semja árlega um leiguverð við leigusala, og þar er kveðið á um að leiguverð skuli vera sanngjarnt. Viðmiðið um hvað teljist sanngjarnt verð byggist á samræmdri aðferð við að meta kosti húsnæðisins. Hægt er að skjóta síðan ágreiningi til húsaleigunefndar sem getur ákveðið nýtt leiguverð.

Almenna reglan í Noregi er svo að leigusamningar séu ekki gerðir til skemmri tíma en þriggja ára og óheimilt er að hækka leigu nema vegna vísitöluhækkana, og þá einungis einu sinni á ári.

Meira um þetta á vef Íbúðalánasjóðs.