Fleiri í utanlandsferðir en fækkun á ferðum innanlands

Um 83 prósent Íslendinga fóru í utanlandsferð árið 2018, samanborið við um 78 prósent árið áður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem Ferðamálastofa gerði meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2018 og ferðaáform á árinu 2019.

Ferðamálastofa birti í dag niðurstöður könnunarinnar og þar er greint frá því að hlutfall svarenda sem ferðuðust út fyrir landsteinanna árið 2018 var marktækt hærra en á árunum 2009-2017. Gistinætur í útlöndum voru að jafnaði 20 nætur á árinu 2018, um einni nótt fleiri en árið 2017. Spánn og Portúgal voru vinsælustu áfangastaðirnir.

Einnig kemur fram að 85 prósent Íslendinga hafi ferðast innanlands árið 2018. Þeim sem ferðast innanlands hefur fækkað frá 2009 og var marktækur munur þar á. Að jafnaði fóru landsmenn í 6,2 ferðir innanlands árið 2018 og var ekki marktækur munur á fjölda ferða í samanburði við fyrri ár. Dvalið var að jafnaði 12,9 nætur á ferðalögum árið 2018 og voru gistinætur innanlands marktækt færri árið 2018 en á árunum 2012-2014.

Þá skoðaði könnunin hvert landsmenn stefna á þessu ári. Rúmlega níu af hverjum tíu (92,7 prósent) Íslendingum hafa áform um ferðalög á árinu 2019. Ríflega helmingur sagðist ætla í sumarbústaðaferð (55,4 prósent), 52,6 prósent í borgarferð erlendis, 45,7 prósent í heimsókn til vina og ættingja innanlands, um 43,5 prósent í sólarlandaferð og um 34,7 prósent í heimsókn til vina og ættingja erlendis. Sólarlandaferðir, borgarferðir og heimsóknir til vina og ættingja erlendis virðast njóta aukinna vinsælda sé litið til fyrri ára. 

Ferðamálastofa útbjó skýrslu um könnunina og hana má nálgast hér.