Fjöruverðlaunin afhent í gær

Fjöruverðlaunin afhent í gær

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent í þrettánda sinn við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Í flokki fagurbókmennta vann Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis unnu Auður Jónsdóttir, Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir fyrir Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla og í flokki barna- og unglingabókmennta vann Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.

Verðlaunahafar hljóta verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu. Verðlaunin voru afhent í fimmta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna í ár skipuðu Guðrún Lára Pétursdóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Kristín Ástgeirsdóttir í flokki fagurbókmennta; Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Unnur Jökulsdóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; og Arnþrúður Einarsdóttir, Guðrún Jóhannsdóttir og Sigrún Birna Björnsdóttir í flokki barna- og unglingabókmennta.

Rökstuðning dómnefnda er að finna á heimasíðu Fjöruverðlaunanna.

Nýjast