Fjölmiðlarnir stóðust prófið

Þegar á allt er litið stóðust íslenskir fjölmiðlar prófið síðustu daga í erfiðri og viðkvæmri umfjöllun þeirra um leitina að Birnu heitinni Brjánsdóttur að mati Kristjóns Kormáks Guðjónssonar, ritstjóra DV og Valgerðar Jóhannsdóttur, aðjúnkts í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.

Þau eru viðmælendur Sigmundar Ernis í Ritstjóraþætti vikunnar á Hringbraut sem að langmestum hluta fer í umræðu um frammistöðu fjölmiðlanna í þessu stærsta fréttamáli sinnar tegundar á síðustu árum hér á landi, en bæði Kristjón og Valgerður eru sammála um að samstarf pressunnar og lögreglu hafi verið til mikillar fyrirmyndar í þessu þrúgandi máli sem slegið hefur miklum óhug.á íslenska þjóð - og raunar þá grænlenska ekki síður.

Þáttinn, sem frumsýnddur var á þriðjudagskvöld, má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Kristjón Kormákur segir í þættinum að merkilegt andrúm hafi myndast inni á ritstjórn DV strax og alvarleiki málsins varð ljós um þarsíðustu helgi; dagskipunin hafi verið að vanda sig svo í hvívetna að ekkert færi frá fjölmiðlinum öðruvísi en það væri marglesið yfir, staðfest af lögreglu og torveldaði á engan hátt rannsókn málsins heldur þvert á móti hjálpaði þar til; í svona máli væru ein mistök jafngildi þess að eyðileggja trúverðugleika fjölmiðilsins og leggja stein í götu lögreglunnar - og í rauninni hafi það verið svo að allir fréttamenn hafi viljað leggja sitt af mörkum í leitinni að Birnu og vitað sem var að ónákvæmar upplýsingar, hvað þá ósannar, myndu tefja hana. Fyrir vikið hafi myndast einstakt samstarf fjölmiðla, lögreglu, björgunarsveita og alls almennings í landinu.

Í þessu stóra máli hafi í rauninni munurinn á milli ritstýrðra fjölmiðla og samfélagsmiðla opinberast með áberandi hætti; oft og tíðum óstaðfest blaðrið á fésbók og öðrum slíkum miðlum hafi hert blaða- og fréttamenn í að greina kjarnann frá hisminu og kveða niður kjaftasögur um leið og þær brutust upp á yfirborðið svo þær leiddu ekki lögreglu og rannsóknina á glapstigu.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.