Fjölmiðlanefnd - ægivald ríkisins

Það bar til í fyrri viku að Fjölmiðlanefnd gaf út allnokkrar ákvarðanir og álit. Fjölmiðlanefnd sektaði þá sjónvarpsstöðina Hringbraut um samtals tvær milljónir króna fyrir brot á reglum um auglýsingar í fjórum þáttum, sem sýndir voru í fyrra og í ár. Þá hefði stöðin brotið gegn hlutlægnisskyldu sinni í tveimur þáttum.

Nánar til tekið komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu, að í þætti um þorrann í janúar í fyrra, hefði verið fjallað um áfenga vöru Ölgerðarinnar, án þess að nægilega skýrt væri greint á milli ritstjórnarefnis og auglýsinga. Þá hefðu reglur um duldar auglýsingar verið brotnar og sömuleiðis reglur um auglýsingahlutfall. Sama átti við um þátt um fermingar.

Jafnframt hefði Hringbraut brotið gegn lögum um bann við kostun á fréttatengdu efni í þættinum Gjaldeyriseftirlitið, sem sýndur var í október í fyrra, og hvorki gætt að rétti viðmælenda til friðhelgi einkalífs né að hlutlægni og nákvæmni.

Loks hefði stöðin brotið kostunarreglur og ákvæði fjölmiðlalaga um lýðræðislegar grundvallarreglur með því að gæta ekki að hlutlægni og nákvæmni í þættinum Þrotabú Sigurplasts frá því í febrúar síðastliðnum. 
Fjölmiðlanefnd komst einnig að því að vefmiðillinn Nútíminn hefði brotið gegn reglum um skýra aðgreiningu ritstjórnarefnis og auglýsinga og um bann við duldum auglýsingum með umfjöllun um Dominos-pizzur og Meistaramánuð Íslandsbanka í febrúar og mars á þessu ári, en lét kyrrt liggja þar sem Nútíminn hefði ekki brotið af sér áður.

Ef við byrjum á Nútímanum, þá blasir við að Fjölmiðlanefnd telur almenning vera einstaklega skyni skroppinn. Eða hversu hrekklaus þarf maður eiginlega að vera til þess að átta sig ekki á því að mánaðarlöng netklippuröð um pítsugúffandi „áhrifavald“ er ekki fréttaskýring um manneldissjónarmið heldur auglýsing fyrir þá pítsufabrikku, sem nefnd er á 4 sekúndna fresti?

Nú er það auðvitað gott og gilt að skil á milli auglýsinga og ritstjórnarefnis þurfa að vera skýr, en fyrst og síðast lýtur það að trúverðugleika hvers miðils fyrir sig. Það að það þurfi að vera greypt í lög og heil eftirlitsstofnun að brjóta heilann um það allt er fásinna.

Mál Hringbrautar eru snúnari, en framganga Fjölmiðlanefndar engu skárri fyrir það. Kannski skilin milli kynningar og ritstjórnarefnis hafi ekki verið ýkja skýr í þáttum um fermingar eða þorrann, en gat það í alvöru farið fram hjá nokkrum áhorfanda, að um kynningar var að ræða? Fjöldi kynningarblaða kemur út um fermingar, jól, vinnuvélar og fleira, án þess að nokkrum detti í hug að amast við því. Eða átti sig ekki á því hvers kyns er. Eins fjalla fréttastofur ljósvakamiðla af ótrúlegri tilviljun aðallega um þær íþróttadeildir, sem þær hafa sýningarrétt á, og margs konar menningarkynning er líka mjög neysluskotin. Og hvað?

Nánar á

http://www.vb.is/frettir/fjolmidlanefnd/149521/