Fjögur heimili á dag á leigumarkað

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Verkefnisstjórn um aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn var skipuð af honum í lok desember 2018 og kynnti tillögur sínar nýverið. Í þættinum, sem hefst klukkan 21:00 í kvöld, ræðir Ásmundur Einar þessar tillögur.

Samhljómur

Sumt er í tillöguformi frá verkefnisstjórninni en annað er fremur ákveðið og hefur þegar komið fram í lífskjarasamningum ríkisstjórnarinnar. „Þetta kemur í beinu framhaldi af lífskjarasamningum sem ríkisstjórnin átti þátttöku að með sínu framlagi og er í rauninni bara kynnt tveimur sólarhringum seinna. Ástæðan er kannski svolítið sú að þessi starfshópur sem var skipaður þarna, undir forystu Frosta Sigurjónssonar, hann hafði þetta hlutverk, en síðan þegar við fórum að fara inn í viðræðurnar um kjarasamningana líka, og þær fóru að þyngjast, og við erum náttúrulega búin að vera í samtali mjög lengi við aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismálin, að þær tillögur sem þarna var verið að vinna með voru mátaðar svolítið inn í kjarasamninganga. Niðurstaðan varð síðan að ákveðnar tillögur þarna rötuðu í rauninni inn í lífskjarasamninginn sem kynntur var tveimur sólarhringum áður og var þar með samhljómur kominn þarna á milli,“ segir Ásmundur Einar.

Fjögur heimili á dag á leigumarkað

Hann nefnir sérstaklega fólk sem þarf meiri stuðning en aðrir til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn og tillögur sem snúa að því: „Bara ef við skoðum tölur þá hefur á undanförnum árum verið að fjölga mjög mikið á leigumarkaði. Fjögur heimili á dag á síðustu 10 árum hafa farið úr eigin húsnæði inn á leigumarkað. Það er svo mikið, 1.500 á ári að jafnaði, um það við 4,1 heimili á dag. Bara í dag eru fjögur heimili að færa sig af séreignarmarkaði yfir á leigumarkað. Meirihluti landsmanna og þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera í eigin húsnæði. Það sýnir líka að stærsti hluti þeirra sem er að flytja sig yfir á leigumarkað eru tekjulægstu 2-3 tíundirnar í samfélaginu. Þetta snýr að þeim og unga fólkinu sem á erfitt með að safna sér fyrir útborgun. Getur ekki leitað til mömmu eða pabba eða ömmu eða afa, eiga ekki baklandið, það er fólkið sem fast er á leigumarkaði.“

Norska startlánaleiðin lögð til hliðar

„Þess vegna eru lagðar til ákveðnar tillögur og voru skoðaðar. Bæði hugmyndir að norskum startlánum, þar sem ríkið kemur inn og fjármagnar það sem upp á vantar, þegar viðkomandi er að fjármagna [kaup íbúðar], með mjög stífum skilyrðum og þú ferð inn í ákveðið prógramm, og þessa eiginfjármögnunarleið, eða hlutdeildarlán, sem er síðan í pakkanum sem ríkisstjórnin kynnti með aðilunum, og niðurstaðan úr samtali ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins var að vinna með þessa eiginfjármögnunarleið áfram og þá svona ýta kannski þessari norsku startlánaleið svolítið til hliðar. Vinna með þessa eiginfjármögnunarleið sem byggir á breskri fyrirmynd og byggir á því að ríkisvaldið beini sínum stuðningi til þessa hóps sem ekki nær að safna fyrir útborgun, eða nær ekki að kljúfa það, með þeim hætti að ríkið kemur sem eignaraðili inn í fasteignina,“ bætir Ásmundur Einar við.

„Breska leiðin“

Hann útskýrir þessa svokölluðu „bresku leið“ nánar: „Ef við segjum að þú værir einn af þessum einstaklingum sem ættir rétt á og uppfylltir þau skilyrði að geta sótt um þetta, þá gæti ríkið komið inn með eigin fjárhlutfall þarna inn og það væri þá sameiginlegt eignarhald ríkisins og þín á þessari fasteign. Þú myndir fjármagna fyrir hluta, síðan kæmi ríkið þarna inn og þetta yrði án vaxta í einhvern tíma. Síðan eftir ákveðinn tíma færu að koma vextir á þetta, en ef þú síðan seldir eignina þá myndi ríkið leysa aftur til sín fjármagnið á markaðsvirði eða ef þú vilt kaupa ríkið út, þá er það í boði. Þetta hefur gefið góða raun í Bretlandi. Menn eru sammála um það, aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld, að vinna þessa leið áfram.“