Fjársjóður jóns ásgeirs er fundinn

Stundin hefur á grunni Panamaskjalanna rakið milljarðaslóð Jóns Ásgeirs og Ingibjargar, eiginkonu hans í skattaskjól. Aðalfrétt Stundarinnar í dag afhjúpar að Jón Ásgeir Jóhannesson á og tengist miklum eignum í skattaskjólum þrátt fyrir að hann hafi neitað því í gegnum árin. Skjölin sýna umfangsmikil viðskipti Ingibjargar Pálmadóttur, fjárfestis og aðaleiganda fjölmiðlafyrirtækisins 365, og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í félögum í skattaskjólum heimsins. Ingibjörg er skráður eigandi félagsins Guru Invest í Panama sem borgaði upp skuldir upp á 2,4 milljarða við Glitni og Jón Ásgeir er eigandi Jovita Inc. í Panama meðal annars.

„Það er enginn fjársjóður á Tortóla eða einhvers staðar í suðurhöfum,“ sagði Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir í viðtali við Stöð 2 í september 2009. „Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg,“ bætti hann við eins og Stundin bendir á.

En gögn sem Stundin hefur greint úr Panamaskjölunum leiða í ljós að Jón Ásgeir og eiginkona hans , Ingibjörg Pálmadóttir, geymdu milljarða króna í skattaskjólinu Panama í Mið-Ameríku, segir í frétt Stundarinnar.

\"Félag Ingibjargar Pálmadóttur, fjárfestis og aðaleigenda fjölmiðlafyrirtækisins 365, í skattaskjólinu Panama greiddi Glitni banka 2,4 milljarða króna vegna félaga í eigu hennar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í júní árið 2010. Greiðsla félagsins, Moon Capital S.A., var í ríkistryggðum íbúðabréfum og var greidd inn á reikning Glitnis í Lúxemborg. Auk þess voru 200 milljónir króna greiddar í reiðufé. Nafni Moon Capital S.A. var síðar breytt í Guru Invest S.A. Félagið var viðskiptavinur lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama og er Ingibjörg Pálmadóttir skráður eigandi Guru Invest S.A.

Mikla athygli vekur hins vegar að Jón Ásgeir Jóhannesson var með prókúruumboðið fyrir fyrirtækið í Panama eftir að það var stofnað árið 2007 og gat hann því tekið ákvörðun um að skuldbinda þetta félag Ingibjargar þó hann væri ekki skráður eigandi þess,\" segir m.a. í ítarlegri frétt Stundarinnar.

Fyrir skemmtu skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir útgáfustjóri 365 leiðara þar sem hún kallaði það \"pólitíska lágkúru\" að þingmenn minnihlutans vildu rannsókn á Tortólamáli Sigmundar Davíðs. Þá hefur Þorbjörn Þórðarson fréttamaður einnig skrifað  afar umdeildan leiðara  þar sem hann benti á mikilvægi þess að þingmenn væru fjárhagslega sjálfstæðir, það er vel efnaðir. Sá leiðari varð til þess að Illugi Jökulsson frábað sér að fá Fréttablaðið oftar í hendur.
Hringbraut ræddi við blaðamann Fréttablaðsins sem gefið er út á vegum 365 í gær um möguleikann á að eigendur 365 væru í Panamaskjölunum. Sá starfsmaður sagði að starfsmenn 365 hafi allt eins búist við afhjúpun sem þeirri sem Stundin stendur nú fyrir.

Eggert Skúlason, ritstjóri DV, er einnig í Panamaskjölunum en hann gagnrýndi í vikunni að Reykjavík Medía hygðist aðeins heimila Stundinni, Rúv og Kjarnanum aðgang að Panamaskjölunum til að vinna fréttir upp úr, Eggert vildi að DV fengi einnig aðgang og harmaði að beiðni DV um gögnin hefði ekki einu sinni verið svarað.
Sigurjón Magnús Egilsson hætti störfum fyrir 365 í vikunni en hann hefur fært sig yfir til Hringbrautar. Hann er hvað þekktastur fyrir þátt sinn Sprengisand.

-BÞ