Fjárfesti ekki í fyrirtækjum ofurlauna

„Ég mun beina þeim til­mælum til nýkjör­innar stjórnar að haga sínum fjárfestingum með þeim hætti að það verði ekki fjár­fest í fyr­ir­tækjum sem eru með kauprétt­ar­samn­inga eða ofur­laun eða bónusa. Eða haga sér með þeim hætti eins og til dæmis Almenna leigu­fé­lag­ið, að beina við­skiptum sínum frá slíkum félög­um. Það verða skýr skila­boð sem við munum senda nýrri stjórn Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en á næstu vikum verður ný stjórn kosin í Líf­eyr­is­sjóði verzl­un­ar­manna. Kjarninn greinir frá.

Ragnar Þór er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann meðal annars þá stöðu sem er komin upp í kjara­við­ræð­um, fer yfir von­brigði sín með til­lögur rík­is­stjórn­ar­innar í skatta­málum og mjög opin­berar deilur sínar við Almenna leigu­fé­lag­ið.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti lífeyrissjóður lands­ins og einn stærsti fjár­festir á íslenskum mark­aði. Yfir­stand­andi kjör­tíma­bili stjórn­ar­innar lýkur í lok mánaðarins. Stjórn VR tilnefnir helm­ing stjórn­ar­manna en sam­tök ýmissa atvinnu­rek­enda hinn helm­ing­inn. Á næsta kjör­tíma­bili verður stjórn­ar­for­mað­ur­inn úr röðum þeirra sem VR til­nefn­ir.

Ragnar segir að skila­boð sín út á við vegna þessa séu þau að það verði breyttar og aðrar áherslur heldur en hafa ver­ið. „Það eru skila­boð sem mig langar að senda út inn í fjár­mála­kerf­ið, að menn skulu þá hugsa sig tvisvar um þegar þeir fara gegn hags­munum launa­fólks með þessum hætti, að við munum beita okkur með rót­tækari hætti heldur en áður hefur ver­ið.“

Brot úr þættinum er að finna hér:

Stjórn VR gaf í byrjun vikunnar Kviku banka, sem hyggst kaupa GAMMA, móð­ur­fé­lag Almenna leigu­fé­lags­ins, nokkra daga frest til að hætta við kaup sín á GAMMA vegna leigu­hækk­ana Almenna leigu­fé­lags­ins, ella myndi VR færa 4,2 millj­arða króna sem eru í stýr­ingu hjá bank­anum ann­að.

Ragnar segir að hann og aðrir full­trúar VR muni funda með Kviku á morg­un vegna máls­ins „Ég veit svo sem ekki hvað kemur út úr því. Við munum standa fast á þess­ari ákvörð­un. Þó að það liggi fyrir að stjórn­endur Kviku hafi ekki bein áhrif á ákvarð­anir Almenna leigu­fé­lags­ins þá getum við alla­vega nýtt okkur það afl sem við höf­um, að geta stýrt okkar sjóð­stýr­ingu hvert sem við viljum án þess að það kosti okkur eitt­hvað. Það kostar okkur ekk­ert að færa til okkar sjóði, við erum með þannig form á þeim. Við munum færa til okkar sjóði verði Almenna leigu­fé­lagið ekki við kröfum okkar um að hætta þessu ofbeldi sem er beitt gagn­vart þeirra við­skipta­vinum og leigjendum, okkar félags­mönnum meðal ann­ar­s.“

Nánar er rætt við Ragnar Þór í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.