Fjallaskálarnir í kvöld - hrafntinnusker og óskiljanlegasta fyrirbrigði íslenskrar náttúru!

Það verður myndaveisla á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld þegar Sigmundur Ernir og Björn Sigurðsson myndatökumaður klöngrast með erfiðsmunum yfir illfæran kambinn í átt að Hrafntinnuskeri á hinum margrómaða Laugavelli, milli Landmannalaugar og Þórsmerkur.

Þar er að finna einn vinsælasta og mest sótta skála Ferðafélags Íslands - og það er oft þröng á þingi í skerinu á miðju íslensku sumri, sem varir að vísu bara í fáeinar vikur uppi í þúsund metrunum á því svæðinu. Í þættinum kynnumst við skálalífinu, reimleikunum þar og göngumöguleikunum allt í kring, höldum upp á Söðul, yfir Reykjafjöllin, njótum litríkis Hattvers í Jökulgili og skoðum íshellana, jafnt þá smáu við skálann og vestan við hann, þar sem þann stóra og lífshættulega er að finna undir fimmtíu metra þykku farginu.

Og svo er það gullmoli þáttarins, Rauðufossar og upptök árinnar í Rauðauga sem er eitthvert ótrúlegasta ef ekki óskiljanlegasta fyrirbrigði íslenskrar náttúru eins og vel mun koma fram í þætti kvöldsins.

Fjallaskálar Íslands eru unnir í samvinnu við Ferðafélag Íslands og Fjallakofann. Hægt er að horfa á alla þættina inni í hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.