Fisksali gefur út fréttatímann

Glöggir lesendur hafa tekið eftir því að vefurinn frettatiminn.is er kominn aftur í loftið. Það lén var áður í eigu þrotabús blaðsins sem varð gjaldþrota á síðasta ári.

Vefurinn er ekki efnismikill enn sem komið er, en athygli vekur hver stendur á bak við hinn endurreista fjölmiðil.

Fyrr í vikunni var lénið skráð á fyrirtæki með aðsetur í Kaliforníu, en er núna skráð á G. Hermannsson ehf. í Reykjavík. Hjá fyrirtækjaskrá er tilgangur þess sagður vera „heildverslun með fisk og fiskafurðir“.

 Eigandi fyrirtækisins er Guðlaugur Hermansson, sem hefur víða komið við í atvinnulífinu en þó einkum í viðskiptum með fisk.

Fyrir þrjátíu og fimm árum reyndi hann einnig fyrir sér með sölu á hrossakjöti til Frakklands og hann er ennfremur skráður framkvæmdastjóri félagsins Global Mining Investment Inc., sem hefur aðsetur í Nevada-fylki í Bandaríkjunum.

Á vef hins nýja Fréttatíma segir að hann sé rekinn af „nýjum og ferskum aðilum í þessum geira“. Einnig er ætlunin að „vera með athygliverða rit stefnu“.

Guðlaugur Hermannsson er þó ekki alveg ókunnugur í heimi vefmiðla, því að hann hefur um allnokkurt skeið bloggað undir nafninu El Nino (elnino.blog.is).

Í DV í dag er svo hermt að maður að nafni Jóhannes Gísli Eggertsson sé í slagtogi með Guðlaugi í téðri útgáfu, en Jóhannes hafi ítrekað komist í kast við lögin á síðustu árum fyrir margvíslega brotastarfsemi, eins og fram kemur í umfjöllun blaðsins.