Finna ekki kjörstaðinn í smáralind

Svo virðist sem almenningur eigi í miklum erfiðleikum með að finna kjörstaðinn í Smárlind þar sem kjósa má utankjörfundar, ef marka má færslu Össurar Skarphéðinssonar á facebook síðu hans í gær. Össur nefnir þetta „Kosningaratleik“ og að engar leiðbeiningar sé að finna í verslanamiðstöðinni um hvar kjörstaðinn sé að finna en í gær segist hann hafa sjálfur ætlað að kjósa utankjörfundar.

Hann skrifar: „Hvergi var nokkrar leiðbeiningar að sjá um hvar fjandans kjörstaðinn væri að finna. Búið að draga rimla fyrir allar búðir. Meira að segja búið að slökkva á rúllustigunum. Í öllu þessu gímaldi voru fimm eða sex umkomulausar manneskjur sem allar virtust einsog stefnulaus skip í hafvillum. Smám saman kom í ljós að í allri Smáralindinni var enginn nema þessar örfáu hræður sem í dauðans angist voru að gefast upp á því að leita að stað til að kjósa. Ef einhver dauðleg vera sást gripu menn í hana dauðahaldi og spurðu með angistarsvip: „Veistu nokkuð hvar á að kjósa?“ Ég gat náttúrlega engum sagt það en bauð yfirleitt í staðinn að leiðbeina fólki um HVAÐ það ætti að kjósa. - Því var misjafnlega tekið. Um hríð var ég farinn að ganga í hringi og leið einsog ég væri aftur í framboði. Loksins á annarri hæð innarlega sá ég ljós leggja út um eitt búðarbilið“,

Eftir mikið ráf og leit hafi hann þó fundið staðinn og að það hljóti að vera að Sýslumaðurinn í Reykjavík sé „mjög kaldhæðinn húmoristi“.