Festi hf. og dótturfélög kolefnisjafna með samningi við kolvið – dregið úr losun

Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festi hf. og Reyni Kristinsson, stjórnarformann Kolviðs þegar gengið var frá samningi aðilanna.

Festi hf. hefur skrifað undir samning við Kolvið sem felur í sér að útreiknuð losun gróðurhúsalofttegunda vegna beinna áhrifa frá rekstri Festi, N1, Krónunnar, ELKO og Bakkans verður kolefnisjöfnuð. Samningurinn gildir fyrir tímabilið 2018 – 2019.

Rúmlega 5.000 tré verða gróðursett til að framkvæma kolefnisbindinguna, en það jafngildir um hektara af skóglendi árlega, á svæðum sem Kolviður hefur umsjón með.

Til að kortleggja og reikna út losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi fyrirtækjanna var innleidd hugbúnaðarlausn frá Klöppum Grænar Lausnir hf.

Fyrirtæki innan móðurfélagsins Festi hafa áður stigið græn skref sem þessi. Þannig skrifaði N1 undir sameiginlega loftslagsyfirlýsingu ríflega 100 íslenskra fyrirtækja um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda árið 2015 og undirstrikaði þannig áframhaldandi vinnu við að minnka vistspor sitt.

Önnur dótturfélög Festi eru langt komin í sinni vinnu á þessu sviði og má vænta frekari yfirlýsinga vegna þess á næstunni.