Ferðaþjónustudagurinn 2017

Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar flutti ræðu á Ferðaþjónustudeginum 16.mars sl.í Silfurbergi í Hörpu. Ræðan hefur fengið verðskuldaða athygli og vakið þarfa umræðu. Nánar  www.saf.is

Grímur benti á vöxt ferðaþjónustunnar sem vel að merkja þýðir að ferðaþjónustan er að verða langstærsta og öflugasta útflutningsatvinnugreinin á örfáum árum. Greinin mun skila á sjötta hundrað milljarða í erlendum gjaldeyri í þjóðarbúið á þessu ári. Grímur sagði að von sé að 2,3 milljónir ferðamanna heimsæki landið á þessu ári.

Þannig mun ferðaþjónsutan áfram knýja hjól atvinnulífsins með nýjum störfum og fjárfestingum. Ferðaþjónustan knýr ekki síður samfélagsbreytingar sem kalla á nýtt gildismat til dæmis um verðmæti ósnortinna víðerna. og nýrra möguleika til eflingar landsbyggðarinnar og byggðaþróunar.

En Grímur bað menn hafa í huga að vandi fylgir vegsemd hverri. Vöxtur ferðaþjónustunnar er ofurvöxtur á alla mælikvarða. Það væri yfir gagnrýni hafið þótt eihverjir segðu að þetta sé hömlulaus vöxtur. Þessi staðreynd sagði Grímur kallar á nýtt stöðumat um þróun íslenskrar ferðaþjónustu og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar. Meginlausn á stærstu áskorunninni - örum vexti í fjölda erlendra ferðamann - er betra skipulag í sátt við samfélagið.

Þar mun aðgangsstýring leika lykilhlutverk. Grímur nefndi þrjár leiðir. Finna þarf stjórntæki til að stýra betur fjölda ferðamanna sem kemur til landsins. Reyna ber að dreifa ferðamönnum betur um landið og stýra betur aðgangi að stræstu ferðamannaperlunum. Þetta yrði í flestum tilviku árstíðabundið.

Grímur sagði að það væri þekkt staðreynd að fjöldi ferðamanna í eyjasamfélagi eins og okkar ræðst mjög af flugframboði. Grímur spurði hvort ekki væri eðlilegt t.d. að skoða að erlend lággjaldaflugfélög sem fljúga átta vikur á sumri gætu aðeins lent á Akureyri og Egilsstöðum. Þar á móti nytu þessi félög mun lægri lendingargjalda. Keflavíkurflugvöllur væri þá aðeins fyrir flugfélög sem fljúga til Íslands allt árið.  

Verkefnið er að það þarf eins fljótt og kostur er að skapa jafnvægi og stöðugleika milli vaxtar ferðaþjónustunnar og annarra þátt í umhverfi greinarinnar. Grímur sagði að ef við ekki gerum það þá glutrum við niður einstöku tækifæri til langvarandi hagsældar. \"Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar erum tilbúin í þessar samræður á lausnamiðuðum grunn\" sagði Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.