Ferðaþjónustan styrkir ekki gengið

 Mikill fjármagnskostnaður hjá ferðaþjónustufyrirtækjum auk gengisstyrkingar gerir rekstrarumhverfi margra ferðaþjónustufyrirtækja mjög þungt, segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í nýjasta þætti Ferðalagsins.

Greinin fjárfesti í innviðum í fyrra fyrir 100 milljarða og um 60 milljarða þar á undan. Þar með talið eru fasteignafélögin sem byggja og reka hótel, bílaaleigur og rútufyrirtæki.

Varðandi hátt verð á hótelgistingu hér á landi segir Helga að nú sé svo komið að fyrirtæki í ferðaþjónustu finni raunverulega fyrir því að Ísland sé orðið dýrt og það komi niður á bókunum og samkeppnishæfni.

Mikill kostnaðarauki hefur orðið innan greinarinnar, hærra verðlag hér á landi og gengishækkun spila þar mikið inn í, segir Helga og oft sé myndin einfölduð um of: „Þetta er ekki þannig að það sé bara hækkað verð og allir séu að græða svo ofboðslega mikið á tá og fingri“, segir Helga.

Um það hvort gengisstyrkingin sé ekki tilkomin einmitt vegna umsvifa ferðaþjónustnnar segir Helga að ferðaþjónustan sé alls ekki meginaflið að baki styrkingu krónunnar: Það er svo langt frá því að það sé raunin. Hún bendir á að gengið hafi verið að veikjast seinni hluta sumars sem er háannatími í ferðaþjónustunni.