Heitar eyjur og skammtímaleiga

Ferðalagið í kvöld er á heitum en líka umdeildum slóðum. Eyjurnar Balí og Formentera eru mörgum framandi en þangað sækir fólk í einstakan innblástur frá daglegu stressi. Fjöldatakmarkanir á ferðamönnum eru nauðsynlegar, segir formaður SAF og skammtímaleiga er í ólestri þrátt fyrir ný lög um slíkt.

Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leiðsögumaður þekkir eyjuna Balí sem hefur sérstöðu meðal hinna óteljandi eyja í eyjaklasa Indónesíu. Balí er eina eyjan þar sem hindúismi ríkir og þar ferðast fólk yfir í annan heim, fegurðar og þakklætis. „Balí er handan heimsins“, segir Vilborg í afar lifandi spjalli við Lindu.

Skammtímaleiga, líkt og AirBnb er í ólestri hér á landi eins og er. Þetta er inntakið í því sem Sölvi Melax, formaður samtaka um skammtímaleigu segir. Hann tekur dæmi um hve nýtt lagaumhverfi er ófullkomið og alls ekki til þess fallið að ná reglu utan um þessa tegund gistiþjónustu.

Grímur Sæmundsen, stjórnarformaður Samtaka ferðaþjónustnnar og forstjóri Bláa lónsins fer yfir stöðu greinarinnar að afloknum aðalfundi SAF í samtali við Sigmund Erni sem hitti hann á ráðstefnu í Silfurbergi, Hörpu.

Í lok þáttarins heimsækjum við miðjarðarhafseyjuna Formentera sem er minnsta systir Mallorku. Þar er rekin ferðaþjónusta sem er ekki í takt við það sem þekkist á Íslandi síðustu árin. Fjöldatúrmismi er þar bannaður, tekið hefur verið fyrir smíði nýrra hótela á ströndinni næstu 30 árin, og allir erlendir skyndibitastaðir og hótelkeðjur bannaðir.

Ferðalagið er í umsjón Lindu Blöndal og Sigmundar Ernis Rúnarssonar og er frumsýnt Kl.20 og aðgengilegt á tímaflakkinu.