Ferðalagið byrjar á ný í kvöld

Einn vinsælasti dagskrárliður Hringbrautar aftur á skjáinn:

Ferðalagið byrjar á ný í kvöld

Ný þáttaröð af Ferðalaginu hefst á Hringbraut í kvöld, en þessir fjölþættu sjónvarpsþættir, sem hófu göngu sína á stöðinni fyrir réttu ári, nutu mikilla vinsælda allan síðasta vetur.

Þáttastjórnendurnir Linda Blöndal og Sigmundur Ernir fara enda víða í leit sinni að efni og viðmælendum - og á því verður engin breyting á hausti og vetri komanda, en meðal efnis í fyrsta þætti er heimsókn til eins helsta ferðamálafrömuðar á Héraði, Þráins Lárussonar sem rekið hefur margvíslega gisti- og veitingahúsastarfsemi á Austurlandi um langt árabil, en athyglisvert er að heyra sjónarmið landsbyggðarfólks í ferðaþjónustuumræðunni.

Ferðasaga þáttarins kemur af vörum tónlistarmannsins Begga Morthens sem féll fyrir Nepal og einstakri menningu heimamanna fyrir mörgum árum, en hann er Búdda-trúar og hefur tekist í nafni þess lífsstíls að þegja í heila tíu daga. Það er unun að hlýða á Begga segja frá breyttu líferni sínu frá því hann bætti búddatrúnni við kristnina sína.

Þá heimsækir Sigmundur Ernir Mathöllina á Hlemmi sem var opnuð nýverið, en þar kennir svo sannarlega margra grasa í veitingum og viðurgjörningi og má segja fullum fetum að Hlemmurinn hafi loksins fengið það hlutverk sem honum var upphaflega ætlað.

Loks ræðir Linda Blöndal við Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar um lærdóminn af sumrinu sem senn er á enda.

Ferðalagið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.   

Nýjast