Fer áslaug á lista viðreisnar í reykjavík?

Innan Viðreisnar í Reykjavík hefur komið til tals að bjóða Áslaugu Friðriksdóttur sæti á lista flokksins í vor.

 Eins og kunnugt er var Áslaug sett út af lista Sjálfstæðisflokksins ásamt Kjartani Magnússyni þrátt fyrir langa þjónustu þeirra við flokkinn og mikla reynslu af borgarmálum. Mörgum þykja það kaldar kveðjur gagnvart þeim og ómakleg framkoma.

 Áslaug nýtur vinsælda í vissum hópum kjósenda, ekki síst meðal kvenna. Hún á djúpar rætur í stjórnmálum en hún er dóttir Friðriks Sophussonar, fyrrum varaformanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Friðrik var með afbrigðum vinsæll meðal flokksmanna, virtur og farsæll allan sinn feril.

 Stjórnmálaskoðanir Áslaugar hafa þótt liggja frá hægri og yfir á miðjuna, einmitt eins og Viðreisn staðsetur sig í hinu pólitíska litrófi. Hún er þannig talin eiga miklu meiri samleið með Viðreisn heldur en t.d. með Miðflokknum sem er hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn.

 Gangi Áslaug Friðriksdóttir til liðs við framboð Viðreisnar í Reykjavík yrði það mikill styrkur fyrir Viðreisn og enn eitt áfallið fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stillir upp hópi óþekktra frambjóðenda.