Félag eldri borgara tekur íbúðir af þeim sem leita réttar síns: nýta sér kaupréttarákvæði í deilum við gamla fólkið - fá aðeins einn dag til að ákveða sig

Stjórn Félags eldri borgara ákvað á fundi sínum í dag að virkja sérstakt kaupréttarákvæði í lóðaleigusamningi sem kveðið er á um í kaupsamningum vegna íbúðanna sem félagið reisir í Árskógum. Mun félagið eingöngu nýta sér þetta kaupréttarákvæði gegn þeim einstaklingum sem hafa ákveðið að fara með málið fyrir dóm. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Félagið hefur tilkynnt kaupendum tveggja íbúða, sem höfðað hafa mál á hendur félaginu, að félagið hyggist að óbreyttu nýta kauprétt sinn og leysa til sín íbúðirnar sem deilt er um. Í ákvæðinu kemur fram að það skuli gert á sama verði og fram kemur í kaupsamningnum, að viðbættum verðbótum. Þetta þýðir að fólkið sem bjóst við að fá afhentar íbúðir sínar á því verði sem umsamið var upprunalega mun ekki fá þær afhentar. 

„Að sjálfsögðu mun þessum tveimur aðilum, sem hafa höfðað mál, áfram bjóðast að kaupa á sama verði og aðrir, vilji þau það. Stjórnin samþykkti að veita þeim frest fram á miðjan dag á morgun til að taka sína ákvörðun. Það er auðvitað ekki skemmtilegt, ef til þess kemur, að félagið þurfi að beita kauprétti sínum gagnvart þessu fólki og við viljum forðast það í lengstu lög. Hins vegar hefur félagið þennan rétt og kvaðir, eins og þessi, eru vel þekktar í húsum sem byggð eru fyrir afmarkaða hópa. Kaupendur íbúða í Árskógum sem hafa samþykkt sáttaboð félagsins, eða gera það síðar, fá sínar íbúðir afhentar. Þær verða áfram keyptar á mjög góðu verði, verði sem er nokkuð minna en kostaði að reisa þær. Það er smá bót í máli,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara.

Félag eldri borgara segir að það geri sér grein fyrir því að þessi leið sé ekki sársaukalaus fyrir þá kaupendur sem verða fyrir þessu. Til dæmis ef umræddir aðilar hafa nú þegar selt sínar eignir gæti svo farið að þau sitji eftir húsnæðislaus. Telur Félag eldri borgara að þessi leið hafi verið óhjákvæmileg og gerð til að tryggja að félagið tapi ekki fjármunum.

Blaðamaður Hringbrautar hefur í dag ítrekað reynt að ná í Gísla Jafetsson, framkvæmdastjóra félags eldri borgara, vegna málsins en án árangurs.