Fékk hótanir frá sjálfstæðisflokknum: „ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér“

„Auðvitað hafa allir álit á framkomu fólks en þegar maður er í pólitík þá er það ofboðslega brútal vinnuumhverfi og maður verður að vera mjög sterkur til að geta náð árangri þar, sérstaklega þar sem ég og nánast allir sem ég og nánast allir sem ég var með á þingi voru nýliðar og það sem mér finnst bagalegast við það hvernig þingið er orðið núna er hve ofboðslega hröð endurnýjun er þar.“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir fyrrverandi þingmaður í samtali við Mannlíf. Birgitta prýðir forsíðu blaðsins sem kom út í dag. Þar ræðir hún ljóðlistina, árin með Pírötum, stjórnmálin almennt og þegar hún komst fyrst inn á þing fyrir algjöra tilviljun fyrir Borgarahreyfinguna.

Þegar Birgitta er spurð hvað hafi heillað hana við stjórnmálin svarar hún: „Ekki neitt.“ Þannig vildi til að Birgitta var að vinna fyrir Borgarahreyfinguna sem var stofnuð eftir hrun. Það vantaði fleiri konur á listann og Birgitta ákvað að vera á lista og „síðan vaknað inn á þingi einn morguninn“ líkt og hún orðar þar. Birgitta heldur einnig fram að þeir sem hafi setið lengst á þingi kunni á kerfið og eigi auðvelt með að afvegaleiða þá sem eru að setjast nýir á þing, sem þá nái ekki að sinna því sem það brennur fyrir eða var kosið til að koma í framkvæmd. Birgitta segir:

„Þegar það eru svo komnir átta flokkar inn á þing þá er þetta orðið svo brotakennt að það myndast ekki einu sinn sterk stjórnarandstaða sem nær saman um mál. Það eru engir sammála um neitt og allir fullir af óþoli gagnvart öðrum. Ég lenti sjálf í því á mínu fyrsta kjörtímabili að vera í stjórnarandstöðu með Bjarna Ben og Sigmundi Davíð sem var auðvitað fáránlegt.

Hótanir

Þá segir Birgitta frá því að Borgarahreyfingin hafi móðgað Sjálfstæðisflokkinn með því að fara í nefndarstarf með þáverandi meirihluta.

„Ég man að við í Borgarhreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarstarf við meirihlutann. Ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér og það var mjög skrýtið að þurfa að vera í samstarfi við fólk sem maður myndi aldrei tala við annars.“

Viðtalið við Birgittu í heild er hægt að lesa á vef Mannlífs.