Fáum við gömlu framsókn aftur?

 

Umræðan um endurkjör eða breytingar á forystu Framsóknar hitnar eftir því sem nær dregur flokksþingi sem nú hefur verið ákveðið að halda fyrir kosningar. En um hvað snýst það val sem framsóknarmenn standa andspænis?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði bæði tögl og  hagldir í flokknum þar til Panamaskjölin voru birt. Forysta hans var óumdeild. Þeir sem vilja nú að hann víki eru því fyrst og fremst að losa Framsókn við þau óþægindi sem umræðan um Panamaskjölin hefur haft.

Fyrir hálfu ári hefði engum framsóknarmanni dottið í hug að taka rólyndan varaformanninn fram fyrir sjálfsöruggan og aðsópsmikinn formanninn. Þótt umræðan um Panamaskjölin hafi að mestu dottið niður sýnast þau eigi að síður hafa snúið þessu mati við hjá ýmsum.

Einsýnt er að einhverjir framsóknarmenn vilja vinna það til að fórna herskáum formanni fyrir rólyndan í þeim tilgangi að losna við hugsanlega umræðu um Panamaskjölin í kosningabaráttunni. En þetta val mun gera mun meira en að breyta persónulegri ásýnd flokksforystunnar. Það er líklegt til að  hafa afgerandi áhrif á stöðu flokksins í málefnalegu litrófi stjórnmálanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og sá hópur sem staðið hefur næst honum breytti Framsókn fyrir sjö árum í þjóðernissinnaðan popúlistaflokk. Hann braust út úr þröngri stöðu og skóp einn mesta kosningasigur síðari ára. Þessi hugmyndafræði er í mikilli sókn bæði í Evrópu og Ameríku um þessar mundir hvað sem um hana má segja.

Fylgi Framsóknar hefur helmingast á þeim þremur árum sem hann hefur setið í ríkisstjórn. Á sama tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið hlut sínum. Yfirleitt er það svo að popúlistaflokkar missa fylgi þegar þeir axla ábyrgð með því að taka sæti í ríkisstjórn. Þessi fylgisbreyting þurfti því ekki að koma á óvart.

Ákveði framsóknarmenn að ýta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hliðar  bendir flest til að um leið muni þeir snúa baki við þeirri tilraun til breytinga á pólitískri stöðu flokksins sem hann hafði forystu um. Framsókn verður þá aftur hægfara bændaflokkur af gamla skólanum.

Slíkur flokkur getur varist vel í haustkosningunum núna. En framtíðarmöguleikarnir eru ekki eins augljósir. Framsóknarmenn höfðu áður reynt að með fækkun bænda og falli samvinnuhreyfingarinnar var svigrúmið í gamla farveginum orðið þröngt. Halldór Ásgrímsson reyndi að opna ný tækifæri með því að gera flokkinn frjálslyndari og alþjóðasinnaðri. Grasrótin hafði hins vegar ekki þolinmæði fyrir þeirri breytingu.

Of fljótt er að fullyrða hvort tilraun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var líkleg til að takast til lengri tíma litið. En framsóknarmenn eru nú settir í þá stöðu að þeir verða að koma flokknum aftur fyrir í gömlum málefnafarvegi vilji þeir víkja sér undan þrengingum vegna Panamaskjalanna.

Það verður án vafa meiri friður um flokkinn þar. Aftur á móti er vandséð hvernig hann getur með því móti búið sér til sóknarfæri á þeim umbrotatímum sem við lifum. Uppgjörið getur því reynst snúnara en það lítur út fyrir.