Fasteignum á söluskrá fjölgaði mikið á síðasta ári

Árið 2018 voru rúmlega 24 þúsund fasteignir auglýstar til sölu á  öllu landinu, sem er 47 prósent aukning frá árinu á undan. Þrátt fyrir þetta aukna framboð hélst meðalsölutími allra fasteigna nokkurn veginn óbreyttur, en meðalsölutími fasteigna utan höfuðborgarsvæðisins styttist þó verulega. Þá hækkaði leiguverð meira en íbúðaverð og laun á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Í skýrslunni er einnig greint frá því að um 7.000 íbúðir eru þessa dagana í byggingu hér á landi samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessum 7.000 íbúðum eru ríflega 5.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Næst á eftir höfuðborgarsvæðinu eru flestar íbúðir í byggingu á Suðurnesjum, eða um 634 talsins. Hlutfallslega flestar íbúðir eru í byggingu á suðvesturhorninu og fæstar á Vestfjörðum.

Þá kemur fram að alls var 1,5 milljörðum króna úthlutað úr ríkissjóði til fjármögnunar 267 leiguíbúða fyrir tekju- og eignaminni leigjendur eða aðra félagshópa í síðari úthlutun ársins 2018. Alls hefur stofnframlögum verið úthlutað sex sinnum frá 2016 til 2018, samtals um 9 milljörðum króna til uppbyggingar eða kaupa á tæplega 1.700 íbúðum. Segir í skýrslunni að markmiðið með veitingu stofnframlaga sé að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.