Spá því að erlendum farþegum fækki um 388 þúsund og skiptifarþegum um 1,7 milljónir

Í uppfærðri farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að fjöldi erlendra farþega til Íslands í ár verði 1.927 þúsund og fækki þannig um 388 þúsund milli ára. Þá mun fjöldi skiptifarþega sem fara um Keflavíkurflugvöll verða tæpar 2,2 milljónir og fækka þar með um tæpar 1,7 milljónir. Munar þar mestu um brotthvarf WOW air.

Í spá fyrir árið 2019, sem birt var í janúar, var gert ráð fyrir að 8,9 milljón farþegar færu um Keflavíkurflugvöll í ár. Uppfærðar tölur um farþegafjölda í júní og til loka desember benda hins vegar til þess að heildarfjöldi farþega sem fari um Keflavíkurflugvöll árið 2019 verði um 7,3 milljónir, sem er fækkun um tæpar 2,5 milljónir frá því sem var í fyrra.

Auk þess er útlit fyrir að íslenskir farþegar um Keflavíkurflugvöll verði um 631 þúsund árið 2019, sem er 37 þúsund færri en í fyrra.

„Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur verið afar hröð á síðustu árum og hefur það í sumum tilvikum kallað á uppfærða farþegaspá þegar liðið hefur á árið – hvort sem farþegum hefur fjölgað eða fækkað. Í lok mars hætti WOW air, einn stærsti viðskiptavinur Isavia á Keflavíkurflugvelli, starfsemi. Þá var ljóst að gera yrði breytingar á farþegaspá fyrir árið 2019. Því til viðbótar hefur verið nokkur óvissa vegna stöðu Boeing MAX flugvéla Icelandair,“ segir í tilkynningu frá Isavia vegna hinnar uppfærðu farþegaspár.

Spánna má nálgast í heild sinni hér.