Farið á svig við reglur og þingsköp

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í samtali við hringbraut.is að ákvörðun utanríkisráherra um að slíta viðræðum við ESB án aðkomu Alþingis megi líkja við siðrof. Vilhjálmur, sem staddur er á vegum Alþingis í Noregi, kveðst vera að skrifa grein um málið sem hann muni birta á næstu dögum, en í hans huga sé augljóst að þarna hafi verið farið á svig við reglur og þingsköp sem hann óttist að verði hér eftir endurtekið með hættulegum afleiðingum. Að öðru leyti vilji hann ekki tjá sig um efni bréfs Gunnars Braga Sveinssonar til forkólfa ESB áður en hann fái að sjá það eigin augum, en eftir því muni hann kalla með lögformlegum leiðum.


Vilhjálmur Bjarnason er fyrsti stjórnarþingmaðurinn sem tjáir sig með þessum hætti eftir að utanríkisráðherra sendi Evrópusambandinu umtalað bréf sitt á fimmtudag í síðustu viku.  


Í þættinum Heimsljós á Hringbraut í kvöld klukkan 21.30 verður staða umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu rædd í þaula, en gestir þáttarins verða Jórunn Frímannsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Katrín Jakobsdóttir. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í allan gærdag og morgun hefur ekki tekist að fá fulltrúa stjórnarsinna í umræðuna.