Fara offari í árásum

Fara offari í árásum

Efling hefur sent frá sér tilkynningu í kjölfar fréttaflutnings Fréttablaðsins og skoðanapistils Harðar Ægissonar í blaðinu dag. Í tilkynningunni segir að Samtök atvinnulífsins og leiðarahöfundar Fréttablaðsins hafi farið offari í árásum á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar þegar talað er um 60-85 prósenta hækkun launa hjá fyrirtækjum í landinu og kröfugerðin kennd við sturlun og önnur einkenni.

Í tilkynningunni segir einnig að krafa um 60-85 prósent hækkun launa sé fjarri lagi: „Kröfurnar eru mun nær því að vera hóflegar og ábyrgar en hækkun bankastjóralauna og toppanna í samfélaginu á síðustu árum. Kröfur Eflingar og Starfsgreinasambandsins eru um flata krónutöluhækkun ofan á greidd grunnlaun, meðal annars lágmarkslaunatrygginguna sem er nú 300.000 kr. á mánuði. Það þýðir að meðalhækkun launa yfir línuna í atvinnulífinu er mun minni að meðaltali en hækkun lægstu launa. Prósentuhækkun launa verður fallandi þegar sama krónutala kemur ofan á hærri laun.“

Um fréttaflutning Fréttablaðsins segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Öfgaskoðanir þær sem Hörður Ægisson aðhyllist þegar kemur að efnahagsmálum eru ekki lengur bundnar við leiðara eða skrif í Markaðinn. Nú er forsíða Fréttablaðsins undirlögð af þessari yfirgengilegu vitleysu. Það er ekki annað hægt en að hrista hausinn.“

Hún segir örvæntingu gæta í hópi þeirra sem aðhyllast ofræði íslensku auðstéttarinnar. „Þessi örvænting hefur drifið málflutning þeirra langt út fyrir öll siðferðismörk. Lágmarkskröfur um leiðréttingu launa eru kallaðar sturlun á meðan við eigum að trúa því að launahækkanir bankastjóra séu náttúrulögmál. Það er greinilegt að það fjarar stöðugt undan trúverðugleika þeirra, og þau finna það.“

„Þau voru búin að telja sjálfum sér trú um að verka- og láglaunafólk á Íslandi væri búið að sætta sig við hlutskipti sitt, og þau einfaldlega sturlast þegar við segjum nei. Það er náttúrulega ótrúleg kaldhæðni fólgin í því að þegar það gerist, þá saka þau okkur um sturlun,“ segir Sólveig Anna að lokum.

Nýjast