Fann dönsku flugfreyjuna

Myntsafnarafélag Íslands fagnar um þessar mundir hálfrar aldar afmæli og heldur af því tilefni veglega hátíðarsýningu í sal Ferðafélags Íslands núna um helgina, 22. - 24. mars. Þar verða til sýnis ótal margir fágætir og ómetanlegir munir, en sé reynt að skjóta lauslega á efnisleg verðmæti þeirra má áætla að þau nemi á annað hundrað milljóna króna. Auk þess að skoða munina geta gestir komið með sína eigin og fengið úr því skorið hvort þeir séu í reynd fágætir og/eða ómetanlegir eður ei.

Eiríkur J. Líndal, formaður Myntsafnarafélags Íslands, og Gísli G. Harðarson, sýningarstjóri sýningarinnar, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir félagið, sýninguna og söfnunarástríðuna.

Mikil ástríða og eftirfylgni getur verið fólgin í því að safna fágætum hlutum. Eiríkur nefnir sem dæmi flugmerki eitt sem hann leitaði lengi að. „Ég get nefnt það að þegar ég var að byrja í þessu, ég er búinn að vera mjög aktívur í þessu í 20 ár, var ég sérstaklega að eltast við flugmerki, merkingu á flugfélögum. Eftir að ég var búinn að eignast eitthvað af þessum íslensku merkjum, svona þegar ég var rétt að byrja, þá fékk ég áhuga á Færeyjum. Þá hafði ég samband við mann sem þekkti til í Færeyjum og fékk þar bækling frá einhverju færeysku félagi sem hafði einhvern tímann verið til milli 1960 og 1970. Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að fá merki frá þessu félagi, félagið var auðvitað ekki til. Svo ég skrifaði flugfélagi Færeyja sem er til í dag, Atlantic Airwaves, og spurði hvort þau ættu eitthvað frá félögum, sem þau áttu ekki,“ segir Eiríkur.

Hann heldur áfram: „Þá spyr ég hvort þau kannist við konuna sem var á bæklingnum, því það var flugfreyja, með merkið. Það var þannig að þeir könnuðust við þessa konu, það var einhver sem mundi eftir því hvað hún hét, lét mig hafa nafnið og sögðu að hún byggi einhvers staðar í Danmörku. Svo ég tók nafnið, fletti upp í símaskránni í Danmörku, fann nokkrar konur, skrifaði þeim, fékk svo svar til baka. Önnur þessara kvenna var þá þessi kona og ég skrifaði henni aftur og hún spurði hvers vegna ég væri að hafa samband við hana og ég skrifaði aftur og út úr þessu kom að hún sagði að hún hafi verið flugfreyja í 30 ár, hún hefði haldið einu merki allan þennan tíma, það var merkið frá Færeyjum, sem hún sendi mér og gaf mér.“

Gísli segir þetta ekki ólíkt því að leita að fjársjóði. „Þetta er þannig. Stór hluti af áhugamálinu er náttúrulega bæði saga og að grúska í hlutunum og finna út af hverju þeir voru notaðir, hvar þeir voru notaðir og hvernig o.s.frv. Þetta er sagan.“

Merkilegir munir á sýningunni

Á sýningunni verður að finna einstakt úrval af íslenskum og færeyskum seðlum og mynt, vörupeninga, brauðpeninga, tunnumerki frá síldarárunum, herstöðvargjaldmiðla, gömul íslensk hlutabréf og ótal margt fleira af sama toga. 

Dýrasti íslenski seðillinn sem verður sýndur á sýningunni er metinn á um 3-4 milljónir króna, en um er að ræða 50 krónu seðil frá árinu 1886, þann eina sem vitað er um í einkaeign í heiminum. Fyndist slíkur seðill í fyrsta flokks ásigkomulagi í dag mætti áætla að hann seldist á um 10 milljónir króna.

Þá verða sýndar fálkaorður og heiðursmerki, þar á meðal keðja ásamt stórkrossstjörnu, en um er að ræða æðsta stig fálkaorðunnar og bera einungis þjóðhöfðingjar slíka keðju. Flugmerki, tímatöflur og farseðlar íslenskra flugfélaga verða einnig sýnd. Sýndir verða einstakir munir sem tengjast íslenskum nasistum á árunum fyrir stríð, minnispeningar og gripir úr seinni heimsstyrjöld, og orður og viðurkenningar úr þýska hernum á stríðsárunum. Einnig má vekja sérstaka athygli á orðum Vestur-Íslendinga sem börðust í fyrri heimsstyrjöld. Þá má nefna gripi frá skákeinvígi Bobby Fischer og Boris Spassky í Laugardalshöll árið 1972.

Íslenska konan á póstkortum, þar á meðal eina póstkortið sem vitað er um hérlendis sem inniheldur nekt, fær sinn stað á sýningunni. Þá má nefna barmmerki leigu- og hópferðabílstjóra, ungmennafélaga og íþróttafélaga, gjaldmerki stjórnmálaflokka, gullmynt og medalíur. Munir sem tengjast konungskomunni 1907, Alþingishátíðinni 1930 og Lýðveldishátíðinni 1944 verða einnig á sýningunni. Þá er vert að vekja athygli á gömlum íslenskum vöruumbúðum sem bera íslenskri hönnun frá fyrstu tíð skemmtilegt vitni.

Nánar er rætt við Eirík og Gísla í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.