Fangelsi er rándýr geymsla

„Ég hef verið vistaður í langdýrustu geymslu sem í boði er“, skrifar Guðmundur Ingi Þóroddson formaður Afstöðu, félags fanga í grein í Fréttablaðið í gær. Guðmundur Ingi hefur setið inni frá aldamótum í 14 ár vegna tveggja fíkniefnadóma og er nýútskrifaður af Vernd.  Kjarni greinar Guðmundar Inga er að benda okkur á að tilgangur dóma eigi ekki síst að hjálpa föngum að verða nýtir og virkir þjóðfélagsþegnar. Við höldum ekki út betrunarvist, heldur refsivist, segir Guðmundur Ingi sem mætti til Lindu Blöndal á Þjóðbraut fimmtudaginn 26.apríl.

Guðmundur bendir á kostnaðinn fyrir samfélagið að halda hlutum óbreyttum. Persónulega hafi hann náð að hitta sálfræðing eða félagsráðgjafa alls sjö sinnum allan þennan tíma og hann hafi kostað samfélagið 135 milljónir sem sé reyndar vanáætluð upphæð. Hann hafi því verið vistaður í langdýrustu geymslu sem í boði er.

Til viðbótar sé stór hluti fanga endurkomumenn og brjóta af sér aftur enda finni þér sig ekki úti í samfélaginu eftir innilokun. Guðmundur segir í viðtalinu enga uppbyggingu eiga sér stað í fangelsinu og einnig að fangar veigri sér við að tala við þá fáu sálfræðinga sem í boði er þar sem þeir heyri undir Fangelsismálastofnun. Hann fullyrðir að upplýsingar úr samtali fanga við sálfræðing hafi borist stofnuninn og verið notað gegn föngunum. Þess vegna verði að færa alla sálfræði og heilbrigðisþjónustu til Heilbrigðisráðuneytisins.

 

Guðmundur hefur setið í gegnum árin á Litla Hrauni, á Sogni, í fangelsi í Danmörku og nú síðast á Vernd. Hann segir að í Danmörku hafi strax hafist vinna með ráðgjafa sem vann með honum að áætlun um hvernig hann hyggðist nota afplánunartímann til að bæta sig. Guðmundur segir að ekki séu allir fangar tilbúnir í slíkt og þannig verði það alltaf, hins vegar sé stór hópur sem mætti halda frá fangelsum í framtíðinni með slíku.