Guðni lét ekkert stöðva sig til að gleðja ungmennin: „Tár féllu en hjörtun fylltust kjarki og von“

Guðni lét ekkert stöðva sig til að gleðja ungmennin: „Tár féllu en hjörtun fylltust kjarki og von“

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðasókn, deilir fallegri sögu af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að í síðasta mánuði hafi sjálfboðaliðar í verkefninu Örninn farið með ungmenni sem hafa misst ástvini í Vatnaskóg. Bréf hafði verið skrifað til Guðna forseta, þar sem hann beðinn um að ávarpa hópinn í upphafi ferðar. Svaraði hann á þá leið að hann yrði á ferðinni á föstudagskvöldi og myndi renna við til þeirra.

„Þetta kvöld var aftakaveður en það breytti ekki því að á tilsettum tíma lagði forsetabíllinn fyrir utan Gamla skála og út úr hríðarbylnum kom herra Guðni Th. Jóhannesson í opinbera heimsókn. Hann tjáði unga fólkinu að hann hefði hvorki látið veður né nokkuð annað stöðva sig í því að hitta þau þetta kvöld,“ skrifar Jóna Hrönn.

Hún segir það hafa verið ógleymanlega stund við arineld þegar forsetinn ræddi við ungmennin. „Tár féllu en hjörtun fylltust kjarki og von. Þegar forsetinn gekk út til að halda heim hafði ég dregið orð úr Biblíuöskju og við sendum hann út með hlýjar kveðjur og veganesti úr Markúsarguðspjalli sem hljóðaði svona: Jesús sagði: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.““

„Tveimur vikum síðar stóð ég með fermingarhóp við kirkjudyr og var að fara yfir ritningarorðin sem þau höfðu valið sér til að flytja við fermingarathöfnina. Í hópnum var bróðursonur forsetans, Dagur Orri, og þegar ég innti hann eftir sínu versi þá horfði hann beint í augun á mér og mælti: Jesús sagði: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir,““ bætir Jóna Hrönn við.

Tilviljununum var þó ekki lokið. „Við myndatöku í lok athafnar sagði ég kirkjugestum af þessari skemmtilegu tilviljun með ritningarorðin þeirra frænda. Kom þá í ljós að eldri bróðir fermingar­drengsins, JóiPé sem var við athöfnina, hafði einmitt valið þetta sama ritningarvers fimm árum áður, en sá yngri verið allsendis óvitandi um það. Sumt í lífinu er of fallegt til að deila því ekki,“ skrifar hún að lokum.

Nýjast