Fæ ekki sömu þjónustu eða verð

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson er gestur í 21 í kvöld:

Fæ ekki sömu þjónustu eða verð

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson

„Mér finnst þetta bara fyrst og fremst gaman. Mér finnst ofboðslega gaman að vera í búð. Ég er búinn að vera sjálfur í verslunarrekstri í sjö ár. Ég ólst upp við þetta. Ég er búinn að prófa ýmislegt og alltaf einhvern veginn kem ég aftur,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, stofnandi nýrrar matvörubúðar á Hallveigarstíg er nefnist Super1.

Sigurður Pálmi er gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir þessa nýju verslun sína.

Aðspurður um hvernig verslun Super1 sé segir Sigurður Pálmi: „Super1 á að vera hverfisverslun, ég vil þjóna hverfinu. Ég vil hafa minni búðir. Ég sé það að þessir stærstu samkeppnisaðilar mínir, þeir eru dálítið að fara í þetta súpermarkaðaform og stækka búðirnar. Ég vil fara í hina áttina og ég vil vera inni í hverfunum, ég vil kannski vera með aðeins meira úrval og betri ferskvöru og ég vil að fólk geti komið þarna á leiðinni heim úr vinnu og verslað það sem það þarf á einum stað og verið bæði ánægt með úrval og verð.“

Sigurður Pálmi segir erfitt að fara inn á matvörumarkað. „Það sýnir sig að það eru fáir sem fara inn á þennan markað og oftast nær fara þeir fljótt á hausinn. Þetta er fákeppnismarkaður, það er gríðarleg samkeppni og ég finn það að margir framleiðendur, þeir eru hræddir. Þeir eru ekki hræddir við mig heldur eru þeir hræddir við harða húsbóndann sem eru fákeppnisrisarnir. Þetta er ekki gott mál því að þessar stóru keðjur sem eru bara þrjár, þetta eru Hagar, Krónan og Samkaup, ef að þessir framleiðendur missa einn af þessum aðilum út úr sínum viðskiptavinahópi þá eru þeir búnir. Þannig að ég fæ ekki sömu þjónustu og ég fæ ekki sömu verð.“

Nánar er rætt við Sigurð Pálma í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast