Eyþór skuldar samherja háar upphæðir vegna hlutabréfa í morgunblaðinu

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkur og fjárfestir, sem á tæplega fjórðungshlut í Morgunblaðinu, hefur ekki útskýrt hvernig hann fjármagnaði viðskipti sín með Morgunblaðið árið 2017. Svo virðist sem eignarhaldsfélag útgerðarinnar Samherja hafi selt Eyþóri hlutabréf í útgáfufélagi Morgunblaðsins með láni upp á 225 milljónir króna sama ár.

Kaupverð eignarhlutarins, sem ekki var greitt við sölu hlutabréfanna, nam 225 milljónum króna og lánaði eignarhaldsfélag Samherja, Kattarnef ehf., sömu upphæð til ótilgreinds aðila þegar það seldi hlutabréfin sín þetta ár.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um málið.

Eyþór er stærsti hluthafi útgáfufélags Morgunblaðsins með tæplega 23 prósenta hlut í gegnum félag sitt, Ramses II ehf. Kattarnef ehf., bókfærði engan söluhagnað, eða sölutap, af  225 milljóna króna viðskiptum sínum við Ramses II. Kattarnef bókfærði hins vegar veitt lán upp á 225 milljónir til ótilgreinds aðila. Stundin segir það liggja fyrir að um var að ræða Ramses II, sem hafi keypt hlutabréfin og að umrædd upphæð hafi verið söluverð þeirra.

Í viðtali við Stundina í fyrra sagði Eyþór að Samherji hefði ekki lánað honum fyrir hlutabréfunum í Morgunblaðinu: „Þetta eru alvöru, sjálfstæð viðskipti og verðið er trúnaðarmál. Samherji seldi þessi hlutabréf og ég er ekki skuldbundinn þeim með nokkrum hætti í kjölfarið.  Ég er engum háður […] Ég er með alls konar fjárfestingar í gangi og reyni að fjármagna þær með eins skynsamlegum hætti og ég get. Ég er með þetta í sérstöku félagi til að dreifa áhættunni. Ég vil ekki fara út í það í smáatriðum hvernig ég fjármagna þetta en Ramses er með góða eiginfjárstöðu og það stendur á bak við þessa fjárfestingu.“ 

Skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar í fyrra, innan við ári eftir að Eyþór eignaðist hlutabréfin í Morgunblaðinu, sagðist hann telja þörf á því að selja hlutabréfin, með það fyrir augum að koma í veg fyrir mögulega hagsmunaáreksta.

Þrátt fyrir það er Eyþór enn eigandi hlutabréfanna samkvæmt yfirliti Fjölmiðlanefndar um eignarhald Morgunblaðsins. Fjármögnun hlutabréfanna er óljós en Stundin segir það ljóst að Samherji hafi lánað Ramses II fyrir kaupum á hlutabréfunum.

Eyþór hætti sem stjórnarmaður í Ramses II í apríl í fyrra og var prókúra hans yfir félaginu afturkölluð í leiðinni. Í dag er enginn prókúruhafi í félaginu og enginn stjórnarmaður en Eyþór er ennþá eigandi þess og þar með eigandi hlutabréfanna.

Ítarlega umfjöllun Stundarinnar má lesa hér.