Eva maría átti aldrei von á því að sitja í skýrslutöku sem sakborningur: „ég viðurkenni að þetta var áfall“

Eva María Hallgrímsdóttir opnaði fyrirtækið sitt, Sætar syndir árið 2013 og síðan þá hefur það vaxið og dafnað. Í upphafi rekstursins fékk Eva hótanir sem hún telur að hafi átt að hræða hana burt af markaðinum.

„Þegar ég var að undirbúa opnunina í Nethyl fékk ég tölvupóst frá manni sem sagðist vera fyrrverandi bakari og ég skyldi sko ekki halda það að ég fengi að hafa þetta fyrirtæki mitt í friði; bakarar myndu sjá til þess. Mér fannst þetta auðvitað fáránlegt og ákvað að svara þessu ekki heldur hafði samband við vinkonu mína sem er lögfræðingur og hún tók við keflinu. Mér fannst þetta ekki svaravert,“ segir Eva María í viðtali við Vikuna.

Eva viðurkennir að hafa verið brugðið en ákvað að halda starfi sínu áfram þrátt fyrir hótanirnar.

„Ég fékk ofboðslega góð viðbrögð og fólk tók mér vel. Reyndar voru samt ekki allir á eitt sáttir við þessa stelpu sem var farin að baka kökur og skreyta,“ segir Eva en hótanirnar og mótspyrnan sem hún upplifði komu henni í opna skjöldu.

Átti aldrei von á því að vera í yfirheyrsluherbergi á lögreglustöð

Eva segist ekki hafa heyrt meira frá manninum sem hótaði henni en að nokkrum dögum eftir að henni barst pósturinn hafi hún fengið bréf frá lögreglunni sem grunaði hana um að hafa brotið lög.

„Ég viðurkenni að þetta var áfall; ég talaði aftur við lögfræðinginn minn sem fór í málið og sýndi fram á að ég væri með öll tilskilin leyfi. Ákærunni var vísað frá. En þeir kærðu þá niðurstöðu til Ríkissaksóknara sem tók málið fyrir og vísaði því aftur til lögreglunnar. Þá var ég boðuð í skýrslutöku á lögreglustöðinni. Það var mjög spes upplifun, að vera í yfirheyrsluherbergi á lögreglustöð, með lögmann mér við hlið, í skýrslutöku sem sakborningur er eitthvað sem ég hefði aldrei átt von á.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.