Esb andstæðingar til valda á ítalíu

Það hefur verið sagt um ítalska pólitík að hún sé alltaf áhyggjuefni en sjaldnast alvarlegt. Nú þarf kannski að endurskoða þessi almennu sannindi.

ESB andstæðingar í tveimur popúlistaflokkum eru að komast til valda á Ítalíu, einu af sex stofnríkjum Evrópusambandsins.

Sergio Mattarella forseti Ítalíu féllst í gær á tillögu leiðtoga Bandalagsins svonefnda og Fimmstjörnuhreyfingarinnar um lögfræðiprófessorinn Giuseppe Conte sem forsætisráðherraefni nýrrar ríkisstjórnar.

Conte er nánast reynslulaus í stjórnmálum. Hann hefur aldrei setið á þingi né í sveitarstjórnum en hefur verið virkur í Fimmstjörnuhreyfingunni. Hann er byrjaður að manna ráðherrastöður í stjórninni og sagðist í morgun vonast til að geta kynnt nýja ríkisstjórn innan fárra daga.

Matteo Salvini formaður Bandalagsins verður innanríkisráðherra og Luigi Di Maio formaður Fimmstjörnuhreyfingarinnar efnahags- og þróunarmálaráðherra. Forseti Ítalíu þarf að samþykkja endanlegan ráðherralista og ítalska þingið síðan að leggja endanlega blessun sína á nýju stjórnina, en flokkarnir tveir hafa þar meirihluta, nauman þó.

Giuseppe Conte sagði í gærkvöld að loknum fundi með forsetanum að nauðsynlegt væri að marka Ítalíu skýra stefnu innan Evrópu og á alþjóðavettvangi. Sín stefna væri að halda áfram samskiptum við stofnanir innan álfunnar og svo og aðrar þjóðir.