Esb ætti að henda póllandi og ungverjalandi úr sambandinu

Það er hressilegur talsmáti á gestum Ritstjóranna á Hringbraut í kvöld þar sem gömlu starfdsfélagarnir á RÚV, Bogi Ágústsson og Ögmundur Jónasson ræða helstu erlendu fréttamál samtímans; Katalóníudóminn frá í gær, árás Tyrkja á Kúrda, pólsku þingkosningarnar og Brexit.

Báðir eru þeir mjög hugsi yfir þungum dómum yfir tíumenningunum frá Katalóníu; það minni á Franco-tímann þar sem stjórnmálum og dómsvaldi er ruglað saman – og svo ræða þeir óþol Tyrkjavaldsins gagnvart Kúrdum sem ögra stjórnvöldum í kring með kvenfrelsi og lýðræðisást. En svo hvítna hnúarnir þegar talið berst að pólsku þingkosningunum, Bogi telur að ESB ætti að reka Pólland og raunar Ungverjaland líka út sambandinu vegna stjórnlyndis valdhafa i þeim löndum sem rugli saman pólitík, dómsvaldi og fjölmiðlum og krukki í öllu saman til heimabrúks. Og Brexit? Það kann að verða – og raunar mjög líklega – upphafið að endalokum Bretlands í þeirri mynd sem við þekkjum það, að mati Boga, en hver mun sakna þess í sjálfu sér, spyr Ögmundur.

Ritstjórarnir eru hluti fréttaþáttarins 21 og hefja upp raust sína klukkan 21:00.